Að mati sérfræðinga fjármála- og efnahagsráðuneytisins mun hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna hafa áhrif á verðlag.
Þetta kemur fram í skýrslu ráðuneytisins þar sem áætlað er að verð á gistingu, farþegaflutningum, ferðaskrifstofum og baðstöðum hækki um 10,4%. Þjónustan sem þar um ræðir er 39% af heildarneyslu erlendra ferðamanna á Íslandi 2015. Því má áætla að breyting hækki heildarkostnað dæmigerðs ferðamanns í kringum 4%, að öllu öðru óbreyttu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag segir Ari Skúlason hagfræðingur, spurður hvort fyrirtækjum í ferðaþjónustu muni fækka í kjölfar hækkunarinnar, að líklegt sé að hækkun virðisaukaskatts og styrking krónunnar hreyfi við ferðaþjónustunni í átt að stærri og færri einingum.