Sjö þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að forseta þingsins verði falið að koma á fót kynjavakt Alþingis sem hafi það hlutverk að gera úttekt á því hvort og hvernig kyn hafi áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan þingsins.
Enn fremur verði verkefni kynjavaktarinnar að fjalla um það hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaráætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hafi verið framfylgt og skoða næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU).
Bent er á í greinargerð að konur séu einungis 23,4% þeirra sem sæti eigi á þjóðþingum heimsins. „Þótt staðan sé betri hvað þetta varðar á Alþingi er full þörf á að gera úttekt á kynjajafnrétti innan Alþingis.“ Þá er bent á að fjölmörg þjóðþing hafi tekið upp slíka kynjavakt.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.