Vilja umræðu um dánaraðstoð

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír stjórnarþingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að heilbrigðisráðherra verði falið að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma í kringum hana í þeim löndum þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið.

Einnig verði skoðuð lönd þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð. Þá einkum Norðurlöndin, Þýskaland og Kanada. Meðal annars hvort opinber umræða er um málið í löndunum eða unnið að lagabreytingum. Upplýsingum verði skilað í formi skýrslu fyrir lok ágúst á þessu ári.

„Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi aðgengilegar upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Tekið er að fram að þingsályktunartillagan feli ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hér á landi í þessum efnum. Tilgangurinn sé einungis sá að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.

Fyrsti flutningsmaður er Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en meðflutningsmenn Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson, þingmenn Viðreisnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert