Súrnun hafsins á okkar slóðum og í Norðurhöfum hefur náð lengra og verður meiri en meðaltal súrnunar mælist í heimshöfum. Þetta kom fram í máli Jóns Ólafssonar, prófessors emeritus við Háskóla Íslands, á ársfundi Veðurstofunnar á fimmtudag. Jón fjallaði í erindi sínu um súrnun sjávar og sagði hann breytingarnar ná allt frá yfirborði og niður á hafsbotn.
„Andstætt því sem gerist í andrúmsloftinu, þar sem koltvísíringurinn dreifist hratt og jafnast út á einu til tveimur árum, þá gerist slíkt ekki í hafinu,“ sagði Jón og kvað hita, seltudreifingu og strauma hafa áhrif þar á.
Áætluð þróun á meðalsýrustig sjávar sýni að áætlun Parísarsamkomulagsins dugi varla til. „Höfin taka við um fjórðungi losunar gróðurhúsalofttegunda, en það kostar og stöðug upptaka koltvísýrings breytir sýrustigi sjávar.“
Slíkt hafi áhrif á fjölda tegunda og þannig sýni rannsóknir á þorsk úr Barentshafi og Eystrasalti fram á aukin afföll þorsklifra, minni nýliðun og auknar líkur á lélegum árgöngum. „Súrnun hefur víðtæk áhrif,“ sagði Jón. „Við erum ekki að tala um breytingar og áhrif á einstakar tegundir heldur breytingar og áhrif á vistkerfið.“
Jón segir að byrjað hafi verið að rannsaka sjóinn fyrir norðan og sunnan Ísland árið 1983. Þær rannsóknir sýni að sýrustig yfirborðssjávar norðan við Ísland lækki 50% hraðar en sunnar í Atlantshafi. „Það er engum blöðum um það að fletta að þetta er að gerast,“ sagði hann og bætti við að í hlýsjónum fyrir vestan land lækki sýrustigið hægar og þar hafi hlýnunin líka orðið meiri.
Sýrustig fer einnig lækkandi í djúpsævinu í kringum Ísland, en lækkandi sýrustigi fylgi aukin súrnun sjávar. „Við erum alltaf að fara í þá átt að sýrustigið lækkar. Mettunargildi argónít-kalks er sömuleiðis að breytast, það er lágt og breytist hratt á landgrunninu norðan Íslands og breytingar ná frá yfirborði til botns.“
Hann segir lágt kalkmettunarstig og lítið svigrúm til lækkunar vera sameiginlegt einkenni sjávar við Íslandshaf og sjávar í ostrueldisstöðvum á Kyrrahafsströndum Bandaríkjanna, en þar hrundi stofninn úr 500 milljónum ostra í 100 milljónir við þessar breytingar.
Jón bætir við að vistfræðilegar afleiðingar þessa fyrir hafið við Ísland séu lítt þekktar, en dæmin sýni þó að þetta sé ekkert að byrja . „Þarna hafa breytingar verið í gangi sl. 200 ár, en þó mestar sl. 50-60 ár,“ sagði hann og kvað mikið ráðast af því hvað verði gert til að draga úr losun núna. „Það skiptir öllu hvort það verði viðsnúningur á þessari breytingu, upp á það hvort að þetta fari að ganga til baka.“