„Mr. Prime Minister, what can you tell me about a company called Wintris?“ var líklega ein áhrifamesta setning síðasta árs. Í dag er slétt ár síðan landsmenn fengu að sjá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, ganga út úr viðtali við Sven Bergman, fréttamann SVT, sem tekið hafði verið upp í ráðherrabústaðnum tæpum mánuði fyrr.
Í þættinum var greint frá því að eiginkona Sigmundar Davíðs ætti háar fjárhæðir í félaginu Wintris á Bresku-Jómfrúareyjunum, fjármuni sem hún hafði erft fyrir bankahrunið og enn fremur kröfu á föllnu íslensku bankana.
Afleiðingarnar af þættinum voru gríðarlegar. Viðtalið var sýnt í Kastljósi sunnudagskvöldið 3. apríl 2016 og á miðvikudeginum 6. apríl voru Íslendingar komnir með nýjan forsætisráðherra.
4. apríl rann upp bjartur og fagur í miðborginni. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku daginn snemma og voru komnir á skrifstofur sínar við Austurstræti klukkan átta um morguninn til þess að funda um stöðuna. Í samtali við mbl.is sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, að á fundinum hafi verið tekin einróma ákvörðun um að dreifa tillögum um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og kosningar á þingflokksfundum stjórnarandstöðunnar þann dag.
„Undir þessum kringumstæðum er þetta það eina í stöðunni,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þáverandi þingmaður Pírata, jafnframt í samtali við mbl.is. Birgitta Jónsdóttir, flokkssystir Helga, tók í sama streng og sagði það óskandi að Sigmundur Davíð myndi sjá sóma sinn í því að skila umboði sínu áður en þingfundur hæfist klukkan 15. Birgitta sagði að það væri það eina siðlega í stöðunni. Aðspurð hvernig hún héldi að dagurinn myndi þróast sagði hún það erfitt að segja. „Það er svo óútreiknanlegt fólk sem maður er að vinna með.“
Helgi Hrafn bætti við að þetta væri auðvitað staða sem kæmi sem betur fer ekki oft upp og því væri erfitt að segja til um framhaldið. „En eitt er ljóst, krafan er alveg skýr. Ef forsætisráðherra á ekki að segja af sér undir þessum kringumstæðum, hvenær þá?“
Atburðarásin þennan dag og næstu daga var hreint út sagt ótrúleg. Sigmundur Davíð vísaði því alfarið á bug að hafa leynt eignarhaldi konu sinnar á Wintris og að hann hafi verið báðum megin við borðið í samskiptum við kröfuhafa bankanna og að hann hafi átt helming félagsins um tíma, á þeim forsendum að honum hefði ekki verið skylt að greina frá fjármálum konu sinnar og að hann hefði ekki komið að samskiptum við fulltrúa kröfuhafa.
Í hádegisfréttum Stöðvar 2 sagðist hann ekki ætla að segja af sér vegna afhjúpunarinnar í þættinum en baðst afsökunar á að hafa staðið sig „ömurlega“ í viðtalinu.
„Ég hef hvorki íhugað að hætta út frá þessu máli né ætla ég að hætta út frá þessu máli,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þingflokksfundur hófst klukkan 15 en þá var fólk farið að safnast saman á mótmæli á Austurvelli sem boðað hafði verið til á Facebook. Mótmælin hófust formlega klukkan 17 og tóku þúsundir manna þátt og kröfðust þess að þingkosningum yrði flýtt um ár og þær haldnar strax um vorið, þ.e. einu ári á undan áætlun.
Að sögn skipuleggjenda mættu um 22.000 manns á Austurvöll þennan bjarta mánudag og voru þau sögð fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar. Aðkoma Sigmundar Davíðs að Panama-skjölunum hafði vakið heimsathygli og óskuðu 75 sjónvarpsstöðvar frá flestum Evrópulöndum eftir því við RÚV að fá að sýna beint frá mótmælafundi við Alþingishúsið.
Andrúmsloftið í þingsalnum var spennuþrungiið og m.a. þurfti forseti Alþingis að biðja þingmenn að gæta orða sinna eftir að Guðmundur Steingrímsson, þáverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, kallaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þekktasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar. Þá sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, að Ísland væri undir auðvaldsstjórn. Sagðist hún síðan hún settist á þing oft hafa velt því fyrir sér hvort hún væri stödd á þingi í vestrænu lýðræðisríki. Svaraði hún því til að svo virtist ekki alltaf vera.
Katrín Jakobsdóttir fór í pontu og bað Sigmund Davíð um að svara hvers vegna hann hafi ekki bara sagt satt í viðtalinu um Wintris. Sigmundur Davíð svaraði Katrínu og sagði svör sín í viðtalinu hafi byggst á undrun vegna spurninganna sem hann var spurður og hann hafi nefnt „ýmislegt í óðagoti“. Með því hafi hann ekki reynt að dreifa athygli frá málinu og segist síðan hafa gefið afdráttarlaus svör.
Katrín spurði hann þó hvort það væri ekki eðlileg krafa að hann segði satt í viðtölum jafnvel þó að spurningarnar kæmu honum á óvart. Tók forsætisráðherra undir að það væri eðlileg krafa. Ítrekaði hann að hvorki hann né kona hans hafi átt eignir í skattaskjóli. Hann hafi þegar gert ítarlega grein fyrir eignarhaldi félagsins og eignum þess.
Þá ítrekaði hann að hann hafi svarað afdráttarlaust um leið og hann hafi verið spurður beint um félagið. Sigmundur Davíð kláraði hins vegar ekki þingfundinn og var farinn út úr þinghúsinu rétt fyrir klukkan 17. Sigmundur Davíð sagði í samtali við fjölmiðla þegar hann yfirgaf þingsalinn að hann væri að verða of seinn. Hvert ferðinni var heitið lét hann hins vegar ekki uppi.
Þingfundi var síðan slitið klukkan 17:43 og þjóðin beið átekta, stór hluti hennar fyrir utan Alþingishúsið við Austurvöll.
Sigmundur Davíð tók þriðjudaginn 5. apríl snemma og var mættur í Ísland í bítið á Bylgjunni á níunda tímanum. Þar sagðist hann ekki kannast við það að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks héngi á bláþræði.
„Nei, samstarfið hangir ekki á bláþræði vegna umræðu núna frekar en umræðu áður sem oft hefur verið hörð. Samstarf hangir eingöngu á bláþræði ef menn vilja ekki starfa saman,“ sagði Sigmundur Davíð. Seinna sama morgun funduðu Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og þáverandi fjármálaráðherra, en Bjarni kom til landsins fyrr um morguninn eftir páskafrí. Á Facebook-síðu sinni greindi Sigmundur frá því að á fundinum hafi verið farið yfir það að „ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“
Sigmundur fór síðan á Bessastaði á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta. Hann gaf ekki upp efni fundarins við blaðamenn á staðnum, hvorki fyrir né eftir fundinn.
Svona voru samræður Sigmundar Davíðs og blaðamanna eftir fundinn:
Blaðamaður: Hvert var efni þessa fundar?
Sigmundur Davíð: Við vorum að spjalla.
Blaðamaður: Verður þingrof? Verður þing rofið að þinni ósk? Hver er niðurstaða fundarins?
Sigmundur Davíð: Við sjáum til með þetta allt saman.
Blaðamaður: Kemur það í ljós í dag? Ætlar þú að halda áfram sem forsætisráðherra?
Sigmundur Davíð: Bless, bless!
Hins vegar vildi Ólafur Ragnar ræða við fjölmiðla og bauð hann þeim inn á Bessastaði. Þar sagði hann að erindi forsætisráðherrans hafi verið að kanna afstöðu hans og óska eftir því að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing nú eða síðar. Með Sigmundi Davíð voru embættismenn forsætisráðuneytisins sem höfðu bréf meðferðis sem óskað var eftir að forseti undirritaði.
Ólafur Ragnar sagði að þeir Sigmundur hefðu rætt málið nokkuð lengi og að hann hefði útskýrt afstöðu sína. „Forseti hlýtur að meta hvort stuðningur sé við þá ósk hjá ríkisstjórnarflokkunum og hvort líklegt sé að þingrof leiði til farsællar niðurstöðu, bæði fyrir þjóðina og stjórnarfarið í landinu,“ sagði Ólafur Ragnar.
Forsetinn sagði að forsætisráðherra hefði ekki getað fullvissað hann um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til að verða við þingrofsbeiðninni. Í ljósi þess tjáði Ólafur Ragnar honum að hann væri ekki tilbúinn til þess, nú eða án þess að hafa rætt við formann flokksins eða jafnvel formenn annarra flokka, að veita honum heimild til að rjúfa þing.
Í kjölfarið hófust þingflokksfundir hjá ríkisstjórnarflokkunum. Sjálfstæðismenn hittust í Valhöll en Framsóknarmenn í þinghúsinu. Bjarni Benediktsson fór snemma af fundinum og lá leiðin til Bessastaða.
Á sama tíma var samþykkt á þingflokksfundi Framsóknarflokksins að Sigmundur Davíð myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embætti hans. Sigmundur Davíð yrði hins vegar áfram formaður Framsóknarflokksins sem og þingmaður. Til stóð að tillagan yrði borin undir forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins seinna sama dag.
Bjarni, sem var á þeim tíma á Bessastöðum, ræddi við blaðamenn eftir fund sinn við forsetann. Þá höfðu borist fréttir af ákvörðun Sigmundar um að stíga til hliðar og sagði Bjarni það stórfrétt. Sagði Bjarni að á fundi sínum með Sigmundi, sem forsætisráðherrann þáverandi skrifaði um á Facebook eins og fyrr segir, hafi hann sagt að ekki yrði búið við breytt ástand.
Bjarni sagði að nú vildi hann fá tíma til að fara yfir stöðuna með Sigurði Inga en myndi fyrst funda með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Sagði hann það bæði sjálfsagt og eðlilegt að ræða áframhaldandi samstarf flokkanna. „Það verður nú ekki annað sagt en að þetta inngrip í hádeginu í dag hafi verið mikilvægt og ég þakka forsetanum fyrir að bregðast rétt við á viðkvæmu augnabliki þar sem það var algjörlega órætt milli flokkanna hvort það væri komið að því að fara fram á þingrof,“ sagði Bjarni.
Frá Bessastöðum fór Bjarni aftur í Valhöll þar sem hann ræddi við þingflokk sinn. Sagði hann við fjölmiðlamenn að það hafi verið einhugur í hópnum að láta reyna á áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna. „Það var góð samstaða um það,“ segir hann í samtali við mbl.is. Eftir fundinn hittust hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknaflokksins, og ræddu málið.
„Þetta var stuttur fundur og við vorum sammála um meginatriðin,“ segir Bjarni, spurður um hvað rætt hafi verið á fundinum.
Þá sagði Bjarni að tillaga Framsóknarflokksins um að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra yrði nú skoðuð af sjálfstæðismönnum. Sagðist hann ekki gera kröfu um forsætisráðuneytið sjálfur.
Sigurður Ingi mætti í Ísland í dag um kvöldið og sagði „dramatíska daga“ standa yfir, fordæmalausa í sögunni. Sagði hann jafnframt að það væri niðurstaða dagsins að reiðin í samfélaginu sýndi að það að aðkoma forsætisráðherra að margumræddu aflandsfélagi á Bresku-Jómfrúareyjum þætti óásættanleg.
Hann ítrekaði þó að Sigmundur Davíð hefði gert hreint fyrir sínum dyrum og sagði virðingarvert af honum að stíga til hliðar til að gera ríkisstjórninni kleift að klára ákveðin verkefni. Sigurður Ingi sagði jafnframt að Sigmundur Davíð nyti stuðnings þingflokks framsóknarmanna enda hefði hann unnið mikilvæg störf í þágu landsins.
Þegar miðvikudagurinn 6. apríl rann upp var þrátt fyrir atburðarás þriðjudagsins nokkur óvissa um hvað hefði eiginlega gerst.
Var það þá helst tilkynning forsætisráðuneytisins til erlendra fjölmiðla sem send var út á þriðjudagskvöldið þar sem fram kom að Sigmundur Davíð væri ekki að hætta og að Sigurður Ingi hafi verið verið beðinn um að taka embættið að sér í „ótiltekinn tíma“.
Mikil óánægja var með tilkynninguna sem þótti frekar óljós miðað við orð ráðamanna daginn áður.
Jóhannes Þór Skúlason, sem var þá aðstoðarmaður Sigmundar, sagði í samtali við mbl.is að tilkynning forsætisráðuneytisins væri í takt við stjórnskipunarlög og vitnaði í 15. grein stjórnarskrárinnar sem segir að forseti veiti ráðherra lausn. Benti Jóhannes jafnframt á að Sigmundur hefði enn ekki sagt af sér.
„Þegar hann mun gera það verður greint frá því eins og eðlilegt er, eftir því sem rétt er, sem verður væntanlega á næstu dögum. Og varðandi þetta með óákveðinn tíma þá er þetta nú bara nákvæmlega það sem gerðist, eins og þeir sögðu þegar þeir komu út, þá var tillagan þannig að það var lagt til við þingflokkinn að [Sigmundur] stigi til hliðar og Sigurður Ingi tæki við embættisskyldum ráðherra um lengri eða skemmri tíma, eftir því sem semdist milli flokkanna. Þannig að þetta er nú bara nákvæmlega það sem gerðist, og bara til að svara spurningum um hvort hann sé búinn að segja af sér eða ekki. Þetta er bara tæknilega rétt,“ sagði Jóhannes.
„Ég skildi þetta nú þannig að hann væri að hætta sem forsætisráðherra. En þessi tilkynning [forsætisráðuneytisins] er sérstök og ég einfaldlega skil hana ekki,“ sagði til að mynda Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Birgir Ármannsson, flokksbróðir Unnar, tók í sama streng kvöldið áður í samtali við mbl.is um stöðu mála.
„Ég skildi hana þannig eins og hún kemur fram í tilkynningu þingflokks framsóknarmanna, þ.e. að hann [Sigmundur Davíð] væri að taka ákvörðun um að stíga til hliðar, Sigurður Ingi myndi taka við og að Sigmundur myndi sitja áfram sem formaður og alþingismaður,“ sagði Birgir.
Þáverandi þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, Brynhildur Pétursdóttir, sagði seinna á miðvikudeginum stjórnarandstöðuna ganga út frá því að fyrir lok dags myndi liggja fyrir hvort Sigmundur hafi sagt af sér eða hvort hann ætlaði í leyfi.
Það var síðan um kvöldið sem enn einn sögulegur viðburður átti sér stað þessa vikuna, þegar Höskuldur Þórhallsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, greindi frá því að Sigurður Ingi myndi gegna embætti forsætisráðherra. Það sem var þó sögulegt var að Höskuldur varð þarna maður kvöldsins án þess að ætla sér það.
Fyrir utan það að greina frá nýjum forsætisráðherra sagði Höskuldur blaðamönnum að Lilja Alfreðsdóttir yrði nýr utanríkisráðherra.
Á Facebook-síðu sinni um kvöldið sagðist Höskuldur hafa verið á leið heim þegar hann „gekk í flasið á blaðamönnum“.
„Eftir langan fund í þingflokknum biðum við á meðan Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð færu fram til að svara blaðamönnum. Ég brá mér afsíðis í hliðarherbergi til að tala í símann. Þegar ég kláraði samtölin sem tóku alllangan tíma var ég á leið heim og gekk í flasið á blaðamönnum,“ skrifar Höskuldur.
Bætir hann við að ekki hafi annað hvarflað að sér en að oddvitarnir tveir væru þegar búnir að svara fyrirspurnum blaðamanna. „Þetta var ferlegt – ég viðurkenni það – en svona er þetta – ég ætlaði mér sko aldeilis ekki að vera einhvers konar „blaðafulltrúi“ nýju stjórnarinnar.“
Hvað gerðist á næstu dögum, vikum og mánuðum þekkja flestir. Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra og Sigmundur Davíð fór í frí.
Ólafur Ragnar hætti við að hætta og tilkynnti framboð sitt í forsetakosningunum 18. apríl við misjöfn viðbrögð en dró framboðið til baka nokkrum vikum síðar. Sagnfræðiprófessor úr Háskóla Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, varð næstum því daglegur gestur í sjónvörpum landsmanna dagana og vikurnar eftir viðburðina á Austurvelli þar sem hann ræddi málin í sögulegu samhengi og heillaði þjóðina. Varð það svo að Guðni, eftir fjölmargar áskoranir, bauð sig fram í kosningunum og bar sigur úr býtum eins og frægt er orðið.
Wintris-málið dró áfram dilk á eftir sér, alla vega innan Framsóknarflokksins. Deilur áttu sér stað um stöðu Sigmundar sem formanns flokksins og kölluðu margir eftir því að Sigurður Ingi tæki við sem formaður. Svo virtist sem endurkoma Sigmundar í stjórnmál myndi fara betur en margir bjuggust við til að byrja með. Hann til að mynda sigraði fyrrnefndan Höskuld Þórhallsson í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi sem varð til þess að Höskuldur hætti í stjórnmálum. Kallað var eftir því að boðað yrði til flokksþings fyrir þingkosningar og var orðið við því.
Skorað var á Sigurð Inga að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð. Sigurður sagðist lengi vel ekki ætla að gefa kost á sér og hafði raunar lýst því yfir að hann færi aldrei gegn Sigmundi en tilkynnti síðan formannsframboð viku fyrir flokksþingið. Sigurður sigraði Sigmund Davíð með 52,7% atkvæða gegn 46,8%. Lilja Alfreðsdóttir var kjörin varaformaður.
Gengið var til kosninga 29. október og stóð Sjálfstæðisflokkurinn uppi með mest fylgi eða 29%. VG hlaut 15,9%, Píratar 15,9% og Framsókn 12,7%. Viðreisn hlaut 10,5%, Björt framtíð 7,2% og Samfylkingin 5,7%. Í janúar náðist loksins að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Það er ekki hægt að neita því að afhjúpunin um Wintris hafi haft gríðarleg áhrif á pólitískan feril Sigmundar. Í ársuppgjöri The Guardian var Sigmundur Davíð sagður ógæfusamasti þjóðarleiðtoginn sem ljóstrað var upp um í skjölunum.
„Af öllum þjóðarleiðtogunum sem kölluðu yfir sig skömm með auði földum á aflandssvæðum var enginn óheppnari en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ógæfusami forsætisráðherra Íslands náðist á myndavél reyna að finna út úr því hvernig hann ætti að útskýra undirskrift sína á skjali Wintris Inc., fyrirtækis á Bresku-Jómfrúareyjum sem átti hluti í einum af föllnu bönkum landsins,“ segir í umfjöllun blaðsins.