„Eykur þetta trúverðugleika íslensks efnahagslífs?“ spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Alþingi í dag. Beindi hún spurningu sinni til Benedikts Jóhannessonar, efnahags- og fjármálaráðherra, og spurði hann út í misvísandi skilaboðs Benedikts og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í erlendum fjölmiðlum um helgina.
Benedikt lét hafa eftir sér í erlendum fjölmiðlum um helgina, þar á meðal breska viðskiptablaðinu Financial Times, að til skoðunar væri að festa gengi krónunnar við aðra gjaldmiðla.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra brást við þessum ummælum Benedikts í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna þar sem hann sagði ekki standa til að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Vinna peningastefnunefndar sem skipuð hefði verið byggðist á því að krónan yrði enn fremur framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.
Benedikt sagði að hann hefði verið spurður að því í blaðaviðtali um hvert verkefni nefndar um peningastefnu yrði. Hann hefði útskýrt það fyrir blaðamanni Financial Times; að finna peningastefnu sem myndi leiða til stöðugra gengis á íslensku krónunni.
„Ég nefndi meðal annars að Viðreisn hefði bent á myntráð, það væri hægt að tengja íslensku krónuna ýmsum stórum gjaldmiðlum. Þeir sem kæmu helst til greina væru Bandaríkjadalur, breska pundið eða evran,“ sagði Benedikt.
Hann sagðist ekki gera neinar athugasemdir við orð forsætisráðherra. „Nefndin er ekki búin að skila niðurstöðu. Þegar hún skilar niðurstöðu þá vinnum við úr þeim.“
Katrín sagðist hafa spurt hvort slíkar yfirlýsingar væru til þess fallnar að auka trúverðugleika á íslenskt efnahagslíf. „Hæstvirtur ráðherra kemur hér upp og segist ekki gera athugasemdir við það, að forsætisráðherra andmæli honum,“ sagði Katrín.
Hún benti á að ráðherra hefði sagt í áðurnefndu viðtali að óbreytt staða væri óverjandi. „Hann er því búinn að gefa sér niðurstöðu þeirrar peningastefnunefndar sem þegar hefur verið skipuð. Telur hann þetta auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs?“
Benedikt sagðist ekki geta borið ábyrgð á því hvernig fólk túlkaði hans orð. „Ég hef skýrt það í blaðaviðtali hvernig þetta átti sér stað,“ sagði ráðherrann og bætti við að það væri vitað að ekki væru allir sammála um peningastefnuna.
„Forsætisráðherra hefur ekki nákvæmlega sömu áherslur og ég. Það sannar bara það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki útibú frá Viðreisn eins og sumir virðast halda.“