„Við höfum sannarlega séð miklar breytingar á gróðurfari Íslands á sl. 30 árum, m.a. með mikilli aukning í grósku landsins og það eru örugglega miklar breytingar fram undan með aukinni hlýnun,“ sagði Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Bjarni flutti erindi á ársfundi Veðurstofu Íslands á fimmtudaginn um loftslagsbreytingar og lífríki landsins. „Við erum farin að sjá áhrif loftslagsbreytinga mikið á íslenska náttúru,“ sagði Bjarni og benti á að þegar svonefndur grænkustuðull, þ.e. magn græns gróðurs, sé skoðaður yfir tímabilið 1980-2010 þá megi sjá að grænkustuðull Íslands hafi hækkað um 80% á þessu árabili.
„Grænkunin hefur verið mest á Suður-, Vestur- og Norðvesturlandi en minni á Austur- og Norðausturlandi og það rímar við hlýnunina í þessum landshlutum.“
Vissulega hafi sauðfé fækkað á sama tíma, sem hafi óneitanlega í för með sér að erfiðara sé að skilgreina nákvæmlega hver áhrif hlýnunar séu. Rannsóknir á svonefndum föstum reitum á Suður- og Norðurlandi sýni hins vegar greinilega að ógróið land sé að lokast. „Það er að draga úr mosaþekju, en háplöntum, grösum og smárunnum er að fjölga. Gróskan er að aukast,“ sagði Bjarni og kvað það alveg ríma við aðrar rannsóknir á grænkustuðlinum.
Bjarni benti enn fremur á að flatarmál birkiskóga eftir sjálfssáningu hafi aukist um 9% frá 1990. „Það á sér líka aðallega stað á þeim stöðum þar sem hlýnunin hefur verið mest.“ Meðalvaxtahraði birkiplantna á síðast áratug hefði þá verið um átta sinnum meiri en á köldu árunum í kringum 1970. „Það sama á við um flestan annan plöntugróður,“ segir hann og bendir á að Ísland sé á norðurmörkum flestra tegunda.
„Hluti af þessari aukningu kemur niður sem afrennsli og fer í ár og vötn og það hefur sést í rannsóknum stígandi magn af lífrænum fæðuefnum í vatni og ám á þessu sama tímabili. Þannig að aukin gróska á landi hefur áhrif yfir í vatn. Hafrannsóknastofnun hefur síðan verið að sjá samsvarandi breytingar t.d. í stærð laxaseiða.“ Lífríki vatnsins svarar meiri framleiðni og grósku, fæðu og hita með stærri seiðum en um leið og kólni eitthvað aftur þá séu seiðin hins vegar fljót að minnka. „Þannig að lífríkið svarar mjög hratt,“ segir Bjarni.
Hann bendir á að þetta hafi líka þau áhrif að seiðin stækki hraðar og fari fyrr til sjávar og tilgátur séu nú uppi um að það hafi haft neikvæð áhrif á endurkomu stórlaxa í laxárnar sem veiðimenn hafi nú miklar áhyggjur af.
Bjarni nefndi bleikjustofninn í Elliðavatni einnig sem dæmi um þessar breytingar. „Ein stærsta breytingin á landlífi á Íslandi snýr að bleikjunni. Á mörgum stöðum á Íslandi er bleikjustofninn að hrynja, en urriði að koma í staðinn,“ sagði hann og benti á að bleikjan sé heimskautafiskur sem vilji lágt hitastig á meðan urriðinn hafi mun hærra kjörhitastig.
Árið 1984 var hlutfallið milli bleikju og urriða í Elliðavatni 70% bleikja á móti 30% af urriða, nú er það hins vegar 90% urriði og 10% bleikja. „Þetta sama er að gerast um allt,“ segir hann.
„Loftslagsbreytingar eru að valda gríðarlegum breytingum á jarðrækt og nýtingu á Íslandi,“ sagði Bjarni og sagði bóndann í sér vera kátan með margar þeirra, en sem náttúrufræðingur þá hafi hann áhyggjur.
„Það eru stórslys að verða í íslenskri náttúru og við erum til að mynda að tapa út einu af okkar vistkerfum sem eru rústamýrarnar. Þær hafa minnkað mikið á síðustu öld og þetta sérstaka lífríki er að hverfa úr náttúrunni. Rústamýrarnar eru í útrýmingarhættu og munu hverfa á næstu áratugum eins og þróunin er að verða.“
Bjarni sagði Ísland nú að komast fram úr þeim aðstæðum sem verið hafa á fyrri hlýskeiðum og því sé nú unnið að rannsóknum á því hvað gerist ef hlýni meira. Þær rannsóknir bendi til þess að ef hlýnunin fari yfir 5 gráður þá lendi til að mynda graslendi á þröskuldi og vistkerfi fari að hrynja.
Grasið nái við þær aðstæður ekki að taka kolefnin upp úr jarðveginum, næringarefni tapist og fari beint ofan í grunnvatnið. „Ef við höldum áfram að losa þá erum við að fara yfir þennan þröskuld.“