Færði 31 fasteign yfir í önnur félög

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Karlmaður á áttræðisaldri hefur verið fundinn sekur um umboðssvik, meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og brot gegn ákvæðum laga um ársreikninga með því að hafa sem eigandi og framkvæmdastjóri fasteignafélags ráðstafað 31 fasteign úr félaginu án endurgjalds til annarra félaga sem maðurinn átti. Segir í dómi Hæstaréttar að engu skipti þótt maðurinn hafi notað leigutekjur af fasteignunum í nýju félagi til viðhalds og framkvæmda á eignunum.

Var hann dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi og til að greiða lögfræðikostnað og sakarkostnað í málinu, samtals um 12 milljónir. Áður hafði héraðsdómur dæmt manninn í  30 daga fangelsi og til að greiða 500 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs vegna brota á lögum um bókhald. Hann var hins vega sýknaður í héraði af öðrum sökum í málinu.

Dómur Hæstaréttar telur að með því að hafa fært fasteignirnar 31 í önnur félög í eigu mannsins hafi hann gerst sekur um umboðssvik.

Heildarverðmæti eignanna sem var ráðstafað nam tæplega 519 milljónum, en áhvílandi heildarskuldir á eignunum nam um 617 milljónum  á árunum 2008 og 2009 þegar brotin voru framin. Þar sem skuldirnar voru hærri en eignin er ekki gengið út frá því að fasteignafélagið hafi orðið fyrir tjóni né skapast veruleg fjártjónshætta við að það missti eignarhaldið yfir eignunum 31, þar sem engin af eignunum hefði getað hrokkið fyrir áhvílandi skulum.

„Á hinn bóginn fól ráðstöfunin í sér að félagið var svipt leigutekjum af eignunum og þar með rekstrargrundvelli sínum. Með þessu varð félagið af tekjum sem samtals námu 60.863.124 krónum, eins og ákærði hefur gengist við,“ segir í dómnum, en þar er jafnframt tekið fram að maðurinn hafi notað fjárhæðina til  viðhalds og framkvæmda á eignunum.

Er maðurinn engu að síður sakfelldur fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu fjártjóni og því dæmdur til refsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert