Fornsögur vinsælli hjá erlendum nemendum

Gísli Sigurðsson er prófessor við Árnastofnun, hér í stálklefa Árnagarðs …
Gísli Sigurðsson er prófessor við Árnastofnun, hér í stálklefa Árnagarðs þar sem íslensku handritin eru. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Til þess að glæða áhuga á íslenskum fornbókmenntum meðal íslenskra stúdenta í meistaranámi á sviðum hug- og félagsvísinda við Háskóla Íslands er nauðsynlegt að opna margar leiðir að textunum með rannsóknarspurningum úr ýmsum fræðigreinum. Þetta segir Gísli Sigurðsson, rannsóknaprófessor á Árnastofnun.

Textar þykja tormeltir

Aðsókn að námi í íslenskum fornbókmennum við HÍ er ekki sem vera skyldi, segir Gísli Sigurðsson. Áhugi meðal almennings er að sönnu mikill, sem kemur þó ekki fram í námsvali íslenskra stúdenta.

„Mig grunar að stúdentunum þyki textarnir tormeltir og sjái ekki hvernig þeir geti skipt máli fyrir þau nútímalegu fræði sem nú eru stunduð á hinum ýmsu námsbrautum við Háskóla Íslands,“ segir Gísli. „Við þurfum að búa þannig um hnútana að öll þau sem hafa áhuga á bókmenntum, sögu, mannlífi, menningu og hvers kyns hugmyndum mannsandans fái að kynnast þessum stórkostlegu textum á forsendum ólíkra fræða og í nútímalegu samhengi. Fornbókmenntirnar eru einstakur gluggi inn í hugmyndaheim og mannlíf miðalda, allt aftur til heiðni, skrifaðar á tungumáli sem er enn móðurmál flestra sem hér eiga heima.“

Þó að Íslendingar beri því við að þeim þyki erfitt að lesa forna málið ættu flest að komast yfir þá hindrun fljótlega eftir að heimur fornsagnanna opnast fyrir þeim, segir Gísli. Háskólinn megi ekki láta reglur um þreyttar einingar og fjármögnun námsbrauta verða til þess að hér sé fjölbreytt úrval meistaranámskeiða í þessum einstöku bókmenntum ekki alltaf í boði, þvert á alla deilda- og sviðamúra. Slíkt nám laði hingað tugi námsmanna sem hafi svo sannarlega gert sér grein fyrir hinni alþjóðlegu sérstöðu. Ekki sé hægt að senda íslenska háskólastúdenta frá skólanum án þess að hafa gefið þeim kost á að hrífast af þessum bókmenntum.

Samstarf um miðaldanám

Gísli segir að vel sé gerlegt að breyta náminu til að bregðast við dvínandi aðsókn – enda spanni íslensku fornritin og efni þeirra margar víddir. Fjárstreymi og starfshefðir í háskólaumhverfinu ráði því hvort af slíku geti orðið.

Nokkur ár eru nú síðan Háskóli Íslands setti á laggirnar, í samvinnu við háskólana í Árósum, Kaupmannahöfn og Ósló – svo og Árnastofnun – norrænt meistaranám í víkinga- og miðaldafræðum. Formlegt heiti er Viking and Medieval Norse Studies og er þetta tveggja ára alþjóðleg námsbraut þar sem nemendum utan Norðurlandanna býðst fjölbreytt meistaranám í fræðum fyrri alda. Nemendum fjölgar á hverju ári og nú síðast voru samþykktar milli 60 og 70 umsóknir fyrir næsta vetur. Þá þurfti, segir Gísli Sigurðsson, að hafna mörgum umsækjendum sem uppfylltu ekki kröfurnar en vildu engu að síður koma. Miðað við reynslu fyrri ára megi gera ráð fyrir að um helmingur þessara nemenda hefji nám hér næsta vetur.

Stúdentar koma víða að úr heiminum

Flestir þeirra erlendu stúdenta sem koma hingað til að nema miðaldafræði og fræðast um fornbókmenntir við HÍ eru frá Norður-Ameríku en aðrir koma frá meginlandi Evrópu, Asíu og víðar að. Gísli Sigurðsson segir þetta fólk hafa staðið sig vel. Margir hafi komist í doktorsnám við helstu háskóla heimsins og fengið störf við rannsóknir og háskólakennslu. „Það er sérlega ánægjulegt að sjá að þau eru líka orðin mjög áberandi og virk á alþjóðlegum ráðstefnum í fræðunum,“ segir Gísli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert