„Hljótum að kalla eftir rannsókn“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst sú staða mjög alvarleg sem komin er upp í þessu máli,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is vegna frétta af því að greining sænsku rannsóknarstofunnar ALS Global á sýnum úr mælistöð við Hólmbergsbraut skammt frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík við Reykjanesbæ hafi verið röng og sýnt fimmfalt meira magn arsens og annarra efna en raunverulega var í sýnunum.

Fyrir rúmri viku flutti Ásmundur ræðu á Alþingi þar sem hann sakaði United Silicon einkum um að greiða ekki ásættanleg laun til starfsmanna og baðst afsökunar á að hafa sem þingmaður greitt götu fyrirtækisins. Nefndi hann einnig aukreitis mengunarvandamál hjá kísilmálmverksmiðjunni og deilur við verkalýðsfélög. Ásmundur segir að eftir sem áður liggi fyrir að reykur hafi komið frá verksmiðjunni og lykt fundist frá henni í bænum.

Frétt mbl.is: Saka þingmann um rangfærslur

„Miðað við það sem nú hefur komið fram og þá þungu umræðu sem þetta fyrirtæki hefur farið í gegnum þá þurfa þeir sem koma þarna að málum að útskýra hvernig svona lagað megi gerast í jafn alvarlegu máli. Þarna er auðvitað mjög mikið undir. Það er ekki aðeins að þetta hafi stórskemmt fyrir þessu fyrirtæki heldur er líka annað fyrirtæki á leiðinni á þennan stað sem er að lenda í vandræðum varðandi fjármögnun og annað út af þessari umræðu.“

Fyrir vikið segir Ásmundur mjög mikilvægt að botn fáist í það hvernig svona mistök geti átt sér stað og gera rækilega grein fyrir því. „Þetta er auðvitað búið að valda samfélaginu og vitanlega þessu fyrirtæki miklum skaða. Fyrir okkur sem erum að vinna í þessum málum þá eykur þetta vantrú og vantraust og það er eitthvað sem er ekki á bætandi í þessu samfélagi. Við hljótum að kalla eftir einhvers konar rannsókn á þessu. Hvernig þetta geti gerst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert