Ökutæki á Íslandi eru orðin fleiri en íbúar á landinu, samkvæmt upplýsingum úr Árbók bílgreina fyrir árið 2016. Heildarfjöldi skráðra ökutækja á Íslandi í árslok 2016 var 344.664, en þannig var fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern íbúa að meðaltali á síðasta ári.
Fjölgun ökutækja frá fyrra ári var um 6% og hefur undanfarin ár verið mun hraðari en fjölgun íbúa á sama tíma.
Í árbókinni segir einnig að tvöföldun hafi orðið í fjölda gjaldþrota bílgreinafyrirtækja árið 2016 í samanburði við árið áður. Alls urðu 38 bílgreinafyrirtæki gjaldþrota árið 2016 en 16 árið áður.
„Þetta er athyglisvert í ljósi þess að á árabilinu frá 2011 til 2015 fækkaði gjaldþrotum í greininni á hverju ári, eða úr 40 og niður í 16 á fjögurra ára tímabili og staða bílgreina hefur almennt styrkst til muna á þessu tímabili,“ segir í árbókinni.
Alls nam velta bílgreina 160 milljörðum króna í fyrra og jókst um 20% frá árinu áður. Þá segir að árið 2016 hafi verið metár í nýskráningum bíla, að því er fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag.