„Miklum útlánavexti fylgir alltaf áhætta og mikilvægt er að fylgst sé vel með henni,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri, en útlán til ferðaþjónustunnar jukust um 27% á síðasta ári að því er fram kemur í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem kynnt var í gær.
Alls nema útlán til ferðaþjónstu nú rúmlega 14% af heildarútlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja. Er greinin orðin þriðji stærsti atvinnuvegaflokkurinn í útlánasafni bankanna, á eftir fasteignafélögum og sjávarútvegi, að því er fram kemur í umfjöllun um útlánavöxtinn í Morgunblaðinu í dag.
Segir í ritinu að þótt útlán ferðaþjónustu vegi enn ekki mjög þungt í bókum viðskiptabankanna gæti útlánaáhætta þeim tengd verið hlutfallslega nokkuð mikil. Í skýrslu sem Íslandsbanki hefur unnið segir að bankinn sé vakandi fyrir áhættu sem fylgi vexti í lánveitingum til ferðaþjónustu og vandi val útlána.