Rak ekki Gunnar Smára

Gunnar Smári Egilsson segist ekki hafa viljað blanda sinni persónu …
Gunnar Smári Egilsson segist ekki hafa viljað blanda sinni persónu í tilraunir til að bjarga Fréttatímanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, veit ekki til þess að Gunnari Smára Egilssyni ritstjóra Fréttatímans hafi verið sagt upp. „Ég veit ekki til þess, enda hef ég ekki vald til þess að reka hann,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is og bendir á að Gunnar Smári sé bæði eigandi og útgefandi blaðsins.

Haft var eftir Gunnari Smára fyrr í dag að hann hafi ekki greint starfsmönnum Fréttatímans frá því að honum hafi verið vikið frá störfum fyrir viku, af því að hann hafi ekki viljað blanda sinni per­sónu­legu stöðu inn í til­raun­ir til að bjarga blaðinu.

Spurður hvernig gangi að fá nýja fjárfesta inn í eigendahóp blaðsins segist Valdimar ekki geta tjáð sig um það og ekkert liggi fyrir á þessum tímapunkti varðandi útgáfu næstu viku. „Það er ekki búið að ákveða að hætta útgáfu,“ segir hann.

Það hafi hins vegar forgang að borga starfsfólki ógreidd laun, en greint var frá því í gær að 10 manns hefðu ekki fengið greidd laun fyrir síðasta mánuð. „Það er forgangsmál að klára að borga laun og við viljum klára þær skuldbindingar sem við höfum. Ef fyrirtækið á ekki fyrir því er sjálfhætt,“ segir hann. Það komi svo í ljós í framhaldinu hvort blaðið haldi áfram að koma út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert