Ríkissjóður mun áfram koma að gerð Vaðlaheiðarganga og var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun að frumvarp sem heimili fjárhæðarhækkun verði lagt fyrir Alþingi eins fljótt og unnt er. Kjarninn greindi fyrst frá málinu.
Í bókuninni sem samþykkt var á fundinum kemur fram að frumvarp til breytinga á lögum um Vaðlaheiðagöng, kveði á um að fjárhæðaheimild laganna verði hækkuð um allt að 4,7 milljarða króna miðað við verðlag í lok síðasta árs. Þá verði gerð úttekt á verkefninu og því sem fór úrskeiðis við gerð Vaðlaheiðarganga.
Upphaflegur samningur við Vaðlaheiðargöng hafi kveðið á um lán til að fjármagna gangnaframkvæmdirnar fyrir allt að 8.700 m.kr. miðað við verðlag í lok árs 2011. Tafir við framkvæmt, vegna erfiðra aðstæðna hafi hins vegar valdið miklum kostnaðarauka.
Nú sjái hins vegar fyrir enda verksins tveimur árum eftir áætlun. „Gera má ráð fyrir að sú óvissa sem einkennt hefur gangagröftinn hverfi að mestu við gegnumslagið sem verður væntanlega á næstu vikum,“ segir í bókuninni.
Í upphaflegum áætlunum hafi verið gert ráð fyrir að ófyrirséður kostnaður gæti numið allt að 7% af framkvæmdaáætlun. Áætlaður umframkostnaður vegna þeirra tafa sem orðið hafa nemur hins vegar um 44% af áætluðum stofnframkvæmdakostnaði miðað við verðlag upphaflegrar lánveitingar. Viðbótarfjárþörfin nemi því um 4.7 milljörðum króna m.v. verðlag og stöðu láns í lok árs 2016.
„Fyrir liggur að hluthafar Vaðlaheiðarganga hf. hafa á aðalfundi félagsins hafnað því að leggja félaginu til aukið hlutafé til að standa undir framangreindum aukakostnaði. Ljóst er að verði framkvæmdinni ekki að fullu lokið kann ríkissjóður sem lánveitandi að skaðast auk þess sem göngin sem nánast eru fullgrafin munu ekki skila þeim samfélagslega ávinningi sem stefnt var að. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er hagfelldast fyrir ríkið að verkefninu verði lokið og það verði síðan skoðað í framhaldinu hvernig best verður að haga framtíðarfjármögnun þeirra eftir að öll óvissa er frá og reynsla verður kominn á rekstur þeirra.“