Vildi ekki auka óvissuna

Gunnar Smári Egilsson
Gunnar Smári Egilsson mbl.is/Golli

„Ég vildi ekki blanda minni persónulegu stöðu inn í tilraunir til að bjarga blaðinu því meiri hagsmunir voru í húfi,“ segir Gunnar Smári Egilsson rit­stjóri, út­gef­andi og stærsti eig­andi út­gáfu­fé­lags Frétta­tím­ans, aðspurður hvers vegna hann hafi ekki greint starfsmönnum frá því að honum hafi verið vikið frá störfum fyrir viku. Frá þessum tíma hafa starfsmenn Fréttatímans ekki náð í hann. Tíu starfs­menn Frétta­tím­ans hafa ekki fengið greidd laun fyr­ir síðasta mánuð.

Þóra Tómasdóttir blaðamaður og ritstjóri Fréttatímans sem kom út í morgun, lýsir Gunnari Smára sem skipstjóra sem hafi stokkið frá borði á ögurstundu. 

Gunnari Smári segist hafa metið það sem svo að hann hafi ekki verið í neinni aðstöðu til að segja fólki frá atburðarásinni því hann taldi að það hefði einungis aukið á óvissuna. „Það hefði verið farsælast fyrir mig að geta sagt frá þessu en það hafði skemmt fyrir öðrum,“ segir Gunnar Smári og bætir við: „Auðvitað gerði ég mér grein fyrir því að fólk var reitt og pirrað yfir því að ég svaraði því ekki,“ segir Gunnar Smári og ítrekar að  hann hafi ekki getað greint frá stöðunni. Honum var vikið úr störfum til að liðka fyrir mögulegri endurskipulagningu. 

Á þessum tíma segist hann hafa óskað eftir því að fá að ræða við starfsfólkið en óvissan var það mikil að það dróst sífellt. „Þegar blaðið fór í prentsmiðjuna og allir voru farnir heim þá var óvissan liðin og þá gat ég ekki annað gert en sent starfsfólkinu póst,“ segir Gunnar Smári. Þessi póstur var sendur á starfsfólkið í morgun. 

Gunnar Smári sem er stærsti eig­andi út­gáfu­fé­lags Frétta­tím­ans sem lagði hlutafé í fyrirtækið lánaði einnig fé til fyrirtækisins. Hann reiknar ekki með að fá það fé til baka. Hann vildi ekki gefa upp hversu há sú upphæð hafi verið.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert