Virkja verklag vegna hryðjuverkaárása

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur virkjað verklag vegna „hryðjuverkaárása í nágrannalöndum.“ Á fundi ríkislögreglustjóra með yfirmönnum löggæslu- og öryggissviðs embættisins var þó ákveðið að hækka ekki viðbúnaðarstig lögreglu að svo stöddu.

Verklagið var virkjað vegna árásarinnar í miðborg Stokkhólms fyrr í dag, þar sem að minnsta kosti þrír létu lífið og átta særðust.

Því hefur verið beint til lögreglunnar á Suðurnesjum að vera sérstaklega vakandi vegna flugs frá Svíþjóð en í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra er ítrekað að ekki séu fyrirliggjandi upplýsingar þess efnis að grunaðir aðilar séu á leið til landsins. Um öryggisráðstöfun sé að ræða.

Ákveðið hefur verið að fjölga sérsveitarmönnum á vakt um helgina.

„Því var beint til lögregluliða að vera á varðbergi gagnvart grunsamlegum einstaklingum og óvenjulegum atburðum sem gætu tengst áformum um stórfellda ofbeldisglæpi.

Greiningardeild og alþjóðadeild ríkislögreglustjóra fylgjast með samskiptakerfum við erlend lögreglulið og öryggisstofnanir og fjölmiðlum og munu meta stöðuna eftir því sem upplýsingar berast,“ segir í tilkynningu.

Áfram verður fylgst með framgangi mála í Svíþjóð en miðað við fyrstu upplýsingar er talið að árásin í Stokkhólmi sé staðbundinn atburður.

Á vettvangi í Stokkhólmi.
Á vettvangi í Stokkhólmi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert