Reykjavíkurborg hefur samþykkt samning við WOW air um uppsetningu hjólaleigu í Reykjavík í sumar. Settar verða upp átta hjólastöðvar í Reykjavík en sambærilegar hjólaleigustöðvar þekkjast víða í borgum erlendis. Borgin auglýsti í fyrra eftir hugmyndum og áhugasömum aðilum til að koma á fót og reka hjólaleigu í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því í Facebook-færslu í gær að búið væri að semja við WOW air um framkvæmd verkefnisins.
„Þetta er bara verkefni sem að við erum búin að vera að vinna að og stefnum á að klára fyrir sumarið,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í samtali við mbl.is. „Þetta verða svona átta stöðvar og fólk getur einmitt leigt á einum stað og skilað á öðrum stað. Þetta þekkist í mjög mörgum borgum í dag,“ segir Svanhvít.
Hún gerir ráð fyrir að um hundrað hjól verði í útleigu í sumar en ennþá á eftir að koma í ljós hvar nákvæmlega hjólastöðvarnar verða staðsettar og hvað það mun kosta að leigja hjól. Þá liggur ekki endanlega fyrri hvenær stöðvarnar muni opna, en stefnt er að því að það verði áður en sumarið gengur í garð. „Þetta er bara á byrjunarstigi en samt komið svona ágætlega af stað,“ segir Svanhvít.
Samkvæmt auglýsingu borgarinnar um verkefnið í fyrra verður aðkoma borgarinnar fyrst og fremst fólgin í því að skapa aðstöðu og leggja til borgarland, en sérhæfðum aðilum er síðan látið eftir að sjá um uppsetningu og allan rekstur. Þá sé tilgangur hjólaleiga að veita fólki aðgang að hjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna og styðja þannig við markmið um vistvænar samgöngur.