Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir hugmyndir um að stofna nýjan flokk komi ekki á óvart. Framsóknarflokkurinn sé illa staddur eftir verstu kosningaúrslit í sögu flokksins. Hann kveðst þó ekki tengjast slíkum hugmyndum.
„Einhverjir eru að pæla eitthvað,“ segir Gunnar Bragi í samtali við mbl.is. Uppi hafa verið raddir þess efnis að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, yfirgefi flokkinn og stofni nýjan flokk.
Gunnar Bragi svarar því játandi að hann hafi heyrt hugmyndir um að stofna ætti nýjan flokk. „Það er ekkert óeðlilegt í ljósi þess hver staða flokksins er,“ segir Gunnar Bragi en hann neitar því sjálfur að standa í slíkum hugleiðingum.
Þingmaðurinn hlær þegar hann er spurður að því hvort hann ætli að yfirgefa Framsóknarflokkinn. „Nei, það ætla ég ekki að gera.“