Pétur Gunnlaugsson, lögmaður og útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, var í morgun sýknaður af ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um hatursorðræðu og útbreiðslu haturs. Þetta staðfestir Pétur í samtali við mbl.is, en málið á rætur sínar í ummælum sem féllu í símatíma á Útvarpi Sögu í kjölfar þess að tilkynnt var að hinsegi fræðsla yrði hluti af kennsluefni grunnskóla í Hafnarfirði. Hringdu hlustendur inn sem höfðu skoðanir um málið og féllu á þeim tíma þau ummæli sem ákært var fyrir.
„Það sem skiptir máli fyrir mig persónulega, Útvarp Sögu og hlustendur í símatíma er að tjáningarfrelsið var virt og tilraun til að skerða það gekk ekki upp,“ segir Pétur og bætir við að greinar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans hafi haldið.
Segir Pétur að í forsendum dómsins komi fram að umræða sem þessi sé þjóðfélagsmál sem þurfi að ræða um og nauðsynlegt sé að eigi sér stað.
Lögreglan vísaði málinu upphaflega frá, en ríkissaksóknari fór hins vegar fram á sakamálarannsókn. Var málinu vísað frá héraðsdómi, en Hæstiréttur dæmdi að héraðsdómi bæri að taka málið upp að nýju þar sem verknaðarlýsing lögreglunnar væri skýr í ákæru. Nú hefur fallið dómur í héraðsdómi og er hann sem fyrr segir sýkna.
Pétur segir að auðvitað séu skiptar skoðanir þegar komi að hinsegin fræðslu í skólum, en það sé rétt að ræða um málið í stað þess að banna ákveðnar skoðanir. „Skoðanafrelsið þarf að dafna hjá öllum, líka þeim sem hafa aðrar skoðanir en þú,“ segir hann og bætir við að dómurinn sé mjög gott varnarskjal fyrir tjáningarfrelsið.