Starfsmenn Vegagerðarinnar munu á næstunni taka út helstu atriði á Grindavíkurvegi með tilliti til umferðaröryggis þar.
„Úttekt er fyrsta skrefið. Nú sætum við lagi og förum einhvern næstu daga þegar vel viðrar,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í Morgunblaðinu í dag. Hafa Grindvíkingar mjög þrýst á um lagfæringar á vegunum og kom sú krafa fram í kjölfar tveggja banaslysa þar nýlega.
Hjá Vegagerðinni hafa verið teknar frá 20 milljónir króna vegna fyrstu framkvæmda í umhverfi Grindarvíkurvegar, sem farið verður í þegar niðurstöður væntanlegrar úttektar liggja fyrir. Það eru 16 milljónir króna af almennu viðhaldsfé, en fjórar milljónir króna eru teknar úr potti sem er merktur uppsetningu vegriða.