Fangelsisdómar í stóra skattsvikamálinu

Lögmenn ákærðu í dómsal í morgun.
Lögmenn ákærðu í dómsal í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag átta manns í fangelsi í stóra skattsvikamálinu svonefndu. Halldór Jörgen Gunnarsson, fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra, hlaut þyngsta dóminn og var dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna aðildar sinnar að málinu.

Dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára frá uppkvaðningu og fellur niður haldi hann almennt skilorð. Komi til fullnustu dómsins kemur gæsluvarðhald sem hann sætti til frádráttar. Halldór var annar af tveimur sakborningum sem voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna.

Steingrímur Þór Ólafsson var dæmdur í tveggja ára og sex mánaða fangelsi en dómurinn fellur niður haldi hann almennt skilorð í þrjú ár. Guðrún Halla Sigurðardóttir var dæmd í 18 mánaða fangelsi en dómurinn fellur að sama skapi niður haldi hún skilorð í þrjú ár. Thomas Zahniser var dæmdur í tólf mánaða fangelsi sem einnig fellur niður haldi hann skilorð í þrjú ár. Aðrir fengu fangelsisdóma 3-6 mánaða dóma sem einnig falla niður verði skilorð haldið.

Fólkið var ákært fyrir að hafa svikið út um 270 milljónir króna úr ríkissjóði í gegnum virðisaukaskattskerfið en málið kom upp í september 2010. Samkvæmt ákæru notaði fólkið sýndarfyrirtæki til þess að svíkja fé út úr kerfinu. Brotin voru framin á árunum 2009-2010 samkvæmt ákæru. 

Frá Héraðsdómi Reykjaness í stóra skattsvikamálinu.
Frá Héraðsdómi Reykjaness í stóra skattsvikamálinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtækin höfðu enga raunverulega starfsemi með höndum en í gegnum fölsuð gögn og aðgang að starfsmanni ríkisskattstjóra tókst því að hafa stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist. Fyrirtæki gátu þá fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti meðan á uppbyggingu stóð og tókst fólkinu þannig að svíkja út féð.

Fólkið var ennfremur dæmt til þess að greiða samtals á annan tug milljóna króna í málsvarnarlaun og annan sakarkostnað. Þá voru gerð upptæk ýmis verðmæti sem fólkið hafði í fórum sínum, bæði munir og reiðufé, sem tengdist málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert