Fjölgar mest í bygginga- og ferðaiðnaði

Launþegum í byggingaiðnaði fjölgaði um 17%.
Launþegum í byggingaiðnaði fjölgaði um 17%. mbl.is/Kristinn

Launagreindum á Íslandi fjölgaði um 210, eða 1,3% á 12 mánaða tímabili, frá mars 2016 til febrúar 2017. Voru að jafnaði 16.947 launagreiðendur á Íslandi á þessu tímabili að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar.

Á þessu sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 181.300 einstaklingum laun og er það aukning um 8.300 manns, eða  um 4,8% samanborið við 12 mánaða tímabilið á undan.

Þegar atvinnugreinum er skipt eftir atvinnugreinum má sjá að launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Launþegum hefur hins vegar fækkað í sjávarútvegi.

Í febrúar sl. voru 2.423 launagreiðendur og um 10.700 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum þá fjölgað um 1.500 eða um 17% samanborið við febrúar 2016. Í þessum sama mánuði voru launagreiðendur í greinum tengdum ferðaþjónustunni 1.558  og launþegarnir 23.400, hafði launþegum í þessum greinum fjölgað um 2.900 eða um 14% á einu ári.

Að því er fram kemur á vef Hagstofunnar þá hefur launþegum fjölgað um 6.000 eða um 4% á þessum tíma og er því tæplega helmingur nýrra starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu.

Tölur Hagstofunnar taka ekki til  einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert