Sigríður Eyþórsdóttir lenti í miður skemmtilegri lífsreynslu í gærkvöldi. Hún hafði nýlokið við líkamsrækt dagsins og hugðist keyra heim á leið þegar eggjum var allt í einu kastað í hana og bílinn hennar. Auk þess hrópuðu eggjakastararnir ókvæðisorð að henni.
„Þetta kom alveg upp úr þurru. Ég var að labba úr ræktinni um klukkan ellefu og var komin að bílnum þegar einhver keyrir aftan að mér og kallar eitthvað að mér. Ég lít við og þá er einhverju kastað í mig og ég áttaði mig ekki strax á því hvað væri í gangi. Síðan sé ég að ég er öll úti í eggjum,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is en hún var á æfingu í World Class í Laugardal. Hún hún deildi frásögninni með Facebook vinum sínum.
„Þegar þeir keyra burt þá öskra þeir á mig að ég sé fokkin hóra og mella og einhvern algjöran viðbjóð,“ bætir Sigríður við. Hún stóð við bílinn sinn og segir að bíllinn sé skítugur að innan, enda fóru einhver eggjanna inn í bílinn.
Mennirnir keyrðu burt, öskrandi ókvæðisorð að Sigríði. Hún stóð eftir í hálfgerðu áfalli áður en hún sest inn í bílinn og keyrði burt. „Ég vissi ekkert hver þetta var. Það var ekkert tilefni sem hefði átt að geta valdið þessu.“
Móðir Sigríðar hafði samband við lögregluna sem sagði að málið yrði á skrá hjá henni. „Ég geri mér grein fyrir því að það er fátt sem hægt er að gera. Það er leiðinlegt að vera saklaust fórnarlamb,“ segir Sigríður.
„Þetta var svo viðbjóðslegt af því þeir sögðu svo ljóta hluti,“ segir Sigríður en hún meiddist ekki þó atvikið hafi verið óþægilegt.