„Við vitum ekki enn hversu mörgum rýmum þarf að loka en við vitum að í dag er 150% nýting á rúmum á slysadeildinni,“ segir Guðríður Kristín Þórðardóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
Allt stefnir í gríðarlega manneklu í stétt hjúkrunarfræðinga í sumar og segir Guðríður að það eina í stöðunni verði að loka deildum. „Fimm ára áætlun er ekki nóg. Það þarf að laga ástandið og laga það strax því núna sitjum við bara í súpunni,“ segir Guðríður.
„Við höfum verið að kljást við manneklu núna um langt skeið,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Segir hún fyrirséð að manneklan muni bara aukast nema takist að auka nýliðun í stéttinni og heilbrigðisstofnanir geti boðið samkeppnishæf laun. „Við erum svolítið milli steins og sleggju vegna þess að við erum ekki aðilar að samningum um kaup og kjör nema að mjög litlu leyti,“ segir Sigríður í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.