Brynjar Níelsson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis býst við því að Ólafur Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Samskipa, komi fyrir nefndina fljótlega. Ekki er búið að ákveða neinn tíma.
Rannsóknarnefnd Alþingis kynnti niðurstöðu sína um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á Búnaðarbanka Íslands hf. fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 29. mars, þar sem kom fram að þáttur þýska bankans hefði aðeins verið til málamynda.
Brynjar segir að Ólafur sé búinn að hafa samband við sig og hann á von á því að verða við ósk hans um fund. „Ég á ekki von á öðru. Það væri skrýtið ef maður yrði ekki við þeirri ósk,“ segir Brynjar og tímasetning fundarins verði ákveðin eftir páska.
Þegar skýrsla rannsóknarnefndar var kynnt fyrir nefndinni var fundurinn í beinni útsendingu. Spurður hvort slíkt yrði uppi á teningnum þegar Ólafur kemur á fund nefndarinnar segir Brynjar allt koma til greina í þeim efnum.
„Það er mat nefndarinnar á hverjum tíma hvað menn vilja gera í því. Mér þætti skrýtið ef hann væri ekki að minnsta kosti opinn fjölmiðlum.“