Ólafur Ólafsson óskar eftir fundi

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Ólafsson, kaupsýslumaður og fyrrverandi forstjóri Samskipa, óskar eftir fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum fyrir hans hönd.

Segir þar að hann hafi farið þess á leit við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að fá að tjá sig fyrir nefndinni, um einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. fyrir tæpum fimmtán árum.

Eftirfarandi er tilkynningin í heild sinni:

„Rannsóknarnefnd Alþingis kynnti niðurstöðu sína um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á Búnaðarbanka Íslands hf., fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 29. mars sl. þar sem ég var borinn þungum sökum.

Í kjölfarið hófst mikil fjölmiðlaumfjöllun sem byggði á skýrslu nefndarinnar. Við slíkar aðstæður er ógerningur að halda uppi vörnum og nauðsynlegt að gefa sér ráðrúm til að rýna í ásakanir sem þar koma fram. Ég gaf samdægurs út yfirlýsingu þar sem ég áréttaði að ríkið hefði fengið greitt að fullu fyrir Búnaðarbankann og að staðið hefði verið við alla samninga.

Enn fremur skýrði ég frá því að ég myndi ekki tjá mig um efni skýrslunnar fyrr en ég hefði kynnt mér hana.

Það er ekki hlaupið að því að rifja upp tæplega fimmtán ára gamalt mál. Síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hef ég farið yfir öll aðgengileg gögn er tengjast málinu. Ég tel mikilvægt að kasta ljósi á þær nýju upplýsingar sem ég hafði ekki fengið aðgang að áður og niðurstöður eru dregnar af í rannsóknarskýrslunni.

Réttur vettvangur til að bregðast við er að mínu mati fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, enda var niðurstaða rannsóknarnefndarinnar kynnt þar. Ég geri mér vonir um að varpa þar ljósi á atburðarrásina og svara spurningum sem nefndin kann að beina til mín.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka