Rukka fyrir hlaup en eru án leyfa

Ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir hlaupi í Vík …
Ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir hlaupi í Vík í Mýrdal sem þegar hefur verið auglýst og rukkað er fyrir. mbl.is/Ómar

Hlauparar sem hafa skráð sig í hlaup í Vík í Mýrdal 8. júlí næstkomandi í gegnum síðuna Alpine High Events hafa kvartað yfir því að hafa ekki náð í forsvarsmenn hlaupsins eftir að hafa greitt skráningargjald. Menn óttast að um svikamyllu sé að ræða.

Á vefsíðunni er engin einstaklingur í forsvari fyrir fyrirtækið sem gefur sig út fyrir að skipuleggja viðburði víða um heim. Þetta hlaup á Íslandi er sagður vera hluti af fjölmörgum viðburðum sem það segist hafa staðið fyrir þrátt fyrir að engar frekari upplýsingar um þær uppákomur sé að finna á vefsíðunni. 

Rukkað frá sex og upp í 24 þúsund krónur 

Á síðunni er hægt að velja um að skrá sig í hlaup í Vík í þremur vegalengdum, 10 km, maraþon eða 100 km últrahlaup. Þau kosta á bilinu 60 dollara til 215 dollara eða frá tæpum sjö þúsund krónum og upp 24 þúsund krónur. Auðvelt er að skrá sig því tekið er við skráningu á greiðslum í gegnum síðuna EventBrite með því að gefa upp greiðslukortanúmer. Á þeirri vefsíðu er meðal annars hægt að bóka miða á tónlistarhátíðina Secret Soltice í Reykjavík í júní og Laugavegshlaup svo fátt eitt sé nefnt.

Tveir erlendir hlauparar sem hafa skráð sig í hlaupið hafa sett sig í samband við Guðmund Kristinsson, eigandi vefsíðunnar runninginiceland.com, og sagt farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við forsvarsmenn hlaupsins. Þegar Guðmundur sá hlaupið auglýst setti hann það á dagskrá vefsíðunnar en fjarlægði það þaðan eftir að athugasemdir um hlaupið bárust. 

Enginn svarar fyrirspurn

Guðmundur setti sig í samband við fyrirtækið til að fá frekari upplýsingar um hlaupið fyrir þremur vikum og hefur ekki fengið nein svör. Hann veit ekki hverjir skipuleggja hlaupið. Hann segir það ekkert athugavert að erlendir einstaklingar skipuleggi hlaup á Íslandi slíkt hafi verið gert hér áður. 

Guðmundur segir einkennilegt að ítarlegar upplýsingar liggi ekki fyrir um hlaupið eins og tímasetningar, kort af hlaupaleið og fleira þess háttar. Eðlilegt væri að slíkar upplýsingar lægju fyrir á þessum tíma. Hann segir vefsíðuna líta sannfærandi út sem og Twitter-síðu hlaupsins. 

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hlaupið uppspuni frá rótum

„Eftir að hafa reynt að ná ítrekað í Alpine High Events og fengið engin svör kemst ég að þeirri niðurstöðu að þessi viðburður er uppspuni frá rótum.” Þetta segir Rebecca Finnegan á vefsíðunni runninginiceland.com þar sem hægt er að skrifa athugasemdir við hlaupadagskrá ársins.   

Þar segist hún jafnframt hafa sett sig í samband við EventBrite en fengið þunn svör. Það sama var upp á teningnum þegar hún ræddi við greiðslukortafyrirtækið sitt. Á sama stað segir annar hlaupari sömu sögu. 

„Mér finnst mjög undarlegt að þessum fyrirspurnum sé ekki svarað. Það er mín reynsla að það er gert. Ef ég væri að fara í hlaup erlendis myndi ég vilja vera með allar upplýsingar um hlaupið á hreinu,“ segir Guðmundur. 

Hefur ekki sent frekari upplýsingar

Í ágúst í fyrra hafði maður að nafni Michael Pendleton samband við Ásgeir Magnússon, sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Hann sagði honum að forsvarsmenn hlaupsins Alphine High Events, hefðu beðið sig um að hafa samband við sveitarsjórann og greina honum frá fyrirhuguðu hlaupi 8. júlí í Vík. Hann kynnti sig ekki beint sem einn af þeim sem stæðu fyrir hlaupinu. 

Pendleton sagði sveitarstjóranum að hlaupið færi fram á þjóðveginum en Ásgeir segist hafa bent honum á að sækja þyrfti um leyfi fyrir slík. „Ég hafði á áhyggjur af því en á þessum tíma fara um þjóðveginn 2.800 til 3.500 manns og eflaust fleiri í sumar. Ég bað um fleiri upplýsingar. Það síðasta sem hann sendi mér var óútfyllt umsóknareyðublað um viðburði sem hann sagðist ætla að fylla út síðar,“ segir Ásgeir. 

Hann bendir á að ef nafn sveitarfélagsins á að vera tengt við hlaupið þarf samþykktir sveitarstjórnar en slík fyrirspurn var aldrei send inn. 

Enginn svarar í símann

Pendleton sendi Ásgeiri tvo tölvupósta og eitt símtal fór þeirra á milli í ágúst og september á síðast ári. „Við áttum stutt samtal en ekkert ákveðið í því símtali,“ segir Ásgeir og bætir við: „Meira veit ég ekki.“ 

Símanúmerið sem Pendleton gaf upp við Ásgeir er skráð í borginni Charleston í Bandaríkjunum. Þegar hringt er í umrætt númer hringir út.  

Hefur ekki verið leitað til lögreglunnar

Ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir hlaupinu hjá lögreglunni á Suðurlandi. „Ég hef ekkert heyrt um þetta,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi. Ef beðni um hlaupið yrði send núna til lögreglunnar myndi hún skoða það. „Við myndum ekki slá þetta beint út af borðinu en það er lágmark að tilskilin leyfi liggi fyrir ef það er farið að auglýsa viðburðinn,“ segir Sveinn. 

Í september fór fyrsta færsla á Twitter-síðu hlaupsins í loftið.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert