Mikil fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur leitt til þess að eftirspurn eftir íverustöðum hefur aukist mjög. Á sama tíma og ferðamönnum hefur fjölgað um 80% á tveimur árum hefur framboð á hótelgistirýmum ekki aukist nema um 40%.
Sækja þeir því í auknum mæli í heimagistingu og er það talið hluti þess vanda sem nú er á húsnæðismarkaði hér á landi. Kemur þetta fram í greiningu Íbúðalánasjóðs á vöntun á húsnæðismarkaði. Er þar bent á að Airbnb-skráningum hefur fjölgað um ríflega 1.000 hér á landi á um það bil hálfu ári, en í lok febrúar voru alls 5.820 einingar á skrá til leigu, þar af voru um 4.900 heilar íbúðir.
Í endurskoðaðri hagspá hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir að viðvörunarbjöllur séu farnar að hringja á húsnæðismarkaði vegna viðvarandi skorts á húsnæði og full ástæða sé til viðbragða að hálfu stjórnvalda, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.