2.300 bílar í Landmannalaugar á viku

Fjöldi ferðamanna heimsækir Landmannalaugar þar sem náttúra er einstök og …
Fjöldi ferðamanna heimsækir Landmannalaugar þar sem náttúra er einstök og landslag stórbrotið.

Þegar mest var að gera síðasta sumar á Fjallabaki fóru um rúmlega 2.300 bílar veginn inn í Landmannalaugar á viku hverri, eða yfir 300 á dag.  Árið áður hafði fjöldinn verið rúmlega 1.800 bílar í stærstu vikunum. Þetta má lesa úr skýrslunni Ferðahættir að Fjallabaki sem Vegagerðin hefur gefið út.

Frá júlí til og með september voru taldir um 22 þúsund bílar sem keyrðu inn í Landmannalaugar samkvæmt talningunni.

Í heild eru 16 talningastaðir á Fjallabaki sem sýna dreifingu bílaumferðar um svæðið nokkuð vel. Mesta fjölgunin er á Dómadal og Sigölduleið inn í Landmannalaugar, en minni fjölgun er t.d. á hliðarvegum sem liggja af Fjallabaksleið eins og vegunum í Eldgjá og Langasjó.

Notast er við mæla sem skynja bifreiðar með segulskynjara sem nemur breytingu á segulsviði jarðar þegar bifreiðar aka hjá. Hafa slíkir mælar reynst vel og samkvæmt könnunum sem hafa verið gerðar með sjálfvirkri talningu annars vegar og handvirkt hins vegar sýna að skekkjan er mjög lítil.

Í fyrr var einnig byrjað að skoða dvalartíma ferðamanna með nýrri gerð af mælum. Notast er við svokallaða Blip mæla sem nema Bluetooth og WiFi merki í snjalltækjum og bifreiðum. Með þessu var hægt að mæla 16% af umferðinni, en með frekari snjalltækjavæðingu má gera ráð fyrir að hlutfallið hækki . Var einn mælir settur upp á leiðinni inn í Landmannalaugar og í framhaldinu tveir á Snæfellsnesi í tengslum við uppbyggingu gestastofu þjóðgarðsins.

Fólk ferðast á ýmsa vegu inn í Laugar, bæði á …
Fólk ferðast á ýmsa vegu inn í Laugar, bæði á bílum, mótorhjólum, hjólandi og gangandi. Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Samkvæmt niðurstöðum frá síðasta ári dvöldu flestir í 1 til 4 klukkustundir í Landmannalaugum, eða um 65% þeirra sem þangað komu.

Í skýrslunni segir að fjölgun ferðamanna hafi komið fram í meira mæli í Landmannalaugum en annarsstaðar á hálendinu, innviðauppbyggingin hafi ekki náð að fylgja þessari öru breytingu eftir og því sé mikilvægt að safna gögnum, gera áætlanir og setja markmið og fylgjast með hvernig gengur að ná þeim.

Þá er velt upp þeirri hugmynd að setja upp Blip skynjara á Austurlandi og skoða þannig hvernig ferðamenn fara í gegnum Austurland, hvort þeir fari stystu leið eða fari firðina. Með þessu mætti einnig mæla hve lengi þeir dvelja á Austurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert