Skíðasvæði landsins eru opin í dag og virðist viðra nokkuð vel til skíðaiðkunar víða. Í Bláfjöllum er opið frá 10-17. Þar er heiðskýrt, vindur er 7 m/s og -5°C frost. Samkvæmt venju mun sr. Pálmi Matthíasson halda messu klukkan 13 á svæðinu.
Í Hlíðarfjalli verður opnað klukkan 9 og er opið til 16. Þar er -4°C, 4 m/s og skýjað. Færið er troðinn þurr snjór. Páskatrimm verður haldið í göngubrautinni klukkan 14 og verður keppt í 3,5 km og 7 km vegalengdum með tímatöku. Þá mun Jónsi í Svörtum fötum vera um allt fjall í dag og spila fyrir gesti.
Í Skarðsdal á Siglufirði verður opið frá 10-16, en þar er gola og -3°C og lítilsháttar éljagangur. Færið er troðinn þurr snjór. Páskaeggjabraut fyrir börnin verður frá 14:00.
Í Tindastóli er opið frá 10-16 og í morgun var þar -1,5°C og skýjað og 2 m/s. Samkvæmt upplýsingum frá skíðasvæðinu er svæðið fullt af snjó og færi gott.