Dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra hefur fallist á beiðni rannsóknarlögreglunnar á Akureyri um að tveir karlar og ein kona sæti gæsluvarðhaldi fram á föstudag í tengslum við rannsókn á hnífstungu og fíkniefnamáli. Einn var handtekinn fyrr í dag í tengslum við málið.
Ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem var handtekinn fyrr í dag en lögreglan er að yfirheyra hann, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í lögreglunni.
Um klukkan 14:00 á föstudaginn langa barst lögreglunni á Akureyri tilkynning um að maður hefði verið stunginn með hníf tvívegis í lærið í Kjarnaskógi, eftir að ósætti og átök brutust út á milli þeirra.
Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús en það blæddi töluvert úr sárum þess, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hann fór í aðgerð á sjúkrahúsinu sem tók nokkrar klukkustundir en er ekki lengur í lífshættu.
Sá sem grunaður er um að hafa stungið hann var síðan handtekinn í bifreið á Akureyri um kvöldmatarleytið en í bifreiðinni sem hann var í fundust meðal annars barefli og exi.
Skömmu síðar var par handtekið grunað um aðild að málinu og fannst nokkuð magn af fíkniefnum í fórum þeirra. Alls voru 5 handteknir í tengslum við það fíkniefnamál. Parið og árásaraðilinn í hnífstungumálinu voru vistuð í fangageymslu en þremur aðilum var sleppt að loknum yfirheyrslum vegna fíkniefnamálsins. Einn hefur síðan verið handtekinn til viðbótar eins og áður sagði.