Landspítalinn segir að mikilvægt hafi verið að greina opinberlega frá hrinu mistaka sem eldri maður lenti í þegar hann var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það geri stofnuninni kleift að skoða ítarlega hvað hafi farið úrskeiðis.
Á mbl.is var greint frá stöðufærslu Hafþórs Magna Sólmundssonar á Facebook þar sem hann fer yfir hrakfarir föður síns eftir aðgerð sem hann fór í vegna illkynja æxlis. Meðal annars var faðir hans skilinn eftir úti á flugvelli með opin skurðsár, stóma og í hjólastól í um klukkustund þar sem hann beið eftir að komast í almenna flugið og þegar komið var til Akureyrar kom svo í ljós að enginn sjúkrabíll var á flugvellinum.
Landspítalinn hefur verið í sambandi við fjölskylduna en segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál.
Yfirlýsing Landspítalans í heild:
Upplifun þessarar fjölskyldu af þjónustu okkar á Landspítala er ekki með þeim hætti sem við viljum. Það er okkur mikilvægt að þau völdu að deila þessari upplifun. Það gerir okkur kleift að skoða málið ítarlega og kanna hvað kann að hafa farið úrskeiðis. Það munum við gera og höfum upplýst fjölskylduna um það. Að öðru leyti getum við ekki tjáð okkur um einstök mál.
Landspítali tekur hvert einasta atvik alvarlega, rannsakar þau kerfisbundið og grípur í kjölfarið til úrvinnslu og viðeigandi aðgerða til að fyrirbyggja að mistök og frávik endurtaki sig. Landspítali hefur lagt þunga áherslu á uppbyggingu öflugrar öryggismenningar undanfarin ár undir yfirskriftinni „sjúklingurinn í öndvegi“.
Í öryggismenningu felast sameiginleg gildi og viðhorf sem leiða til ákveðins vinnulags og hegðunar sem varða öryggismál. Öryggismenning sjúkrahúsa byggist á fjórum þáttum: atvikaskráningu, samskiptum, samstarfi og skuldbindingu stofnunar í öryggismálum.