Eins og venjulega er Jón Ólafsson með mörg járn í eldinum. Þegar blaðamaður náði af honum tali var hann nýkominn af æfingu á flutningi Jesus Christ Superstar í Eldborg, og á leiðinni á Mamma Mía-sýningu þar sem hann er tónlistarstjóri. Jón er með annan fótinn í útvarpi og sjónvarpi, og senn lýkur áttunda vetri spjalltónleikaraðarinnar Af fingrum fram, þar sem hann fær til sín góða gesti í Salnum í Kópavogi.
Í byrjun mars sendi Jón líka frá sér nýja plötu, Fiskar, og ekki nóg með það heldur er Nýdönsk að vinna að nýrri plötu en bandið fagnar þrjátíu ára afmæli í ár. Upptökur hófust í Toronto fyrir skemmstu, og hlær Jón þegar blaðamaður hváir – er Kanada svona sniðugur staður til að skapa músík? „Það er löng saga að segja frá því hvernig við enduðum í Toronto. Upphaflega ætluðum við að vinna með strengjaleikurum úr sinfóníuhljómsveit borgarinnar en fannst það á endanum of dýrt og breyttum leikskipulaginu, svo að strengjahlutinn verður tekinn upp með íslensku tónlistarfólki. En við vorum búin að kaupa miðana út, panta hljóðver og gistingu, og létum slag standa,“ segir hann. „Við höfðum svipaðan hátt á þegar við hittumst í Berlín fyrir þremur árum og tókum upp Diskó Berlín. Það virðist reynast okkur vel að stilla okkur inn á nýja stemningu í framandi og byrja að skapa tónlist.“
Jón segir hljómsveitarmeðlimina ætla sér að gera „tímamótaplötu á tímamótaári“, og greinilegt að ekkert verður til sparað fyrst strengjahljómsveit kemur við sögu. „Þetta verður sennilega dýrasta plata okkar til þessa, og að hafa strengjasveit, með tilheyrandi útsetningum og vinnu, þýðir að kostnaðurinn er á við að gefa út tvær plötur.“ Á meðan lesendur láta sig hlakka til að fá nýja Nýdanskrar-plötu í hendurnar geta þeir hlustað á Fiska, nýja sólóplötu Jóns. Geisladiskurinn er kominn í búðir, rafræna útgáfan er á Spotify og vínillinn væntanlegur eftir nokkrar vikur. Umsagnirnar um plötuna hafa verið jákvæðar en Jón er með kenningu um að þar spili inn í að þeim hefur farið fækkandi sem fást við plötudóma og kannski að gagnrýnendur reyni þá frekar að fjalla um plöturnar sem þeim líkar. „Fyrir vikið sleppur maður við vondu dómana og fær bara hlýju móttökurnar, sem er fallega gert,“ segir hann glettinn.
Þeir sem fjallað hafa um Fiska hafa sumir lýst verkinu sem naumhyggjuplötu og eru lögin flest mjög berstrípuð, með einföldum undirleik við söng Jóns. „Í mörgum tilfellum er ég að vinna beint upp úr prufuupptökum á lögunum, og píanóleikurinn stundum upprunalegur og óbreyttur frá því lagið varð fyrst til. Ég vildi vera trúr þessari fyrstu hugsun þegar tónlistin byrjaði að taka á sig mynd, og koma henni til skila á plötunni.“
Söngvarnir eru angurværir og jafnvel rómantískir. „Ég syng mest í fyrstu persónu en er samt ekki endilega að syngja um sjálfan mig,“ útskýrir Jón og bætir við að margir geti tengt sig við viðfangsefni lagana, s.s. söknuð og samlíðan. „Þetta eru ekki uppskrúfaðir textar, og margir bara vinnutextar sem ég bjó til svo ég hefði eitthvað að syngja við laglínuna; jafnvel bara sömu fjögur orðin sungin aftur og aftur í fjórar mínútur. Kannski frekar óvenjuleg leið við lagasmíð, en virkaði á mig líkt og eins konar mantra sem fer hring eftir hring án þess að staðnæmast.“
Fiskar er þriðja sólóplata Jóns og samdi hann flest lögin á plötunni á síðasta ári. Spurður um stefnubreytingar í tónlistarsköpuninni segir Jón að gagnrýnendur hafi bent á að raftónlist er meira áberandi á Fiskum og tengir hann það við „smá raftónlistardellu sem ég fékk fyrir þremur eða fjórum árum, og ambíent-plötuna sem ég gerði með Futuregrapher árið 2014“.
Jón hikar greinlega ekki við að smakka á ólíkum tónlistarstefnum. Hann er fæddur og uppalinn í poppinu, en virðist jafnvígur á framúrstefnulega raftónlist og diskó að hætti Abba. „Mér finnst ég hafa svo mikið frelsi í dag, þökk sé ofboðslega lélegri plötusölu,“ segir hann. „Það er gott að geta verið leitandi í tónlistinni, og núna hefur maður engu að tapa og þarf ekki að spá í hvort lögin fái spilun í útvarpi eða mokist út hjá Hagkaupum. Við þessar kringumstæður get ég látið eftir mér að gera það sem ég fíla. Það er yndislegt, þetta stressleysi sem fylgir því að þurfa ekki að leita að bílastæði við Kringluna í desember til að árita einhverja plötu.“
Segir Jón líka að með Fiskum sé hann mögulega farinn að sætta sig við sína eigin rödd. „Ég hef aldrei verið sérlega hrifinn af röddinni minni og hef líkt henni við húsgagn frá IKEA. Röddin mín er eins og Billy-hilla; gerir sitt gagn en er ekkert æðislega spennandi.“
En kannski er bara ágætt að hafa Billy-rödd. „Ef til vill er ég farinn að þekkja röddina mína betur, hvað ég get gert við hana og hvað ekki, og mögulega er Billy-hillan heimilisleg á sinn hátt. Það er nógu mikið af hávaða, rosalegum tilþrifum og „of-pródúksjón“ í boði, og þá finnst mér fínt að geta verið hálfgerður trúbador með minn gítar og einfalda söng.“