Ólafur Már Björnsson tók skemmtilegt myndskeið á dróna í fjallaskíðaferð Ferðafélags Íslands á Eyjafjallajökul en ferðin var farin síðastliðinn laugardag.
„Það voru 30 manns í ferðinni en þetta er fjallaskíðaferð, sem er nýlegt hjá okkur. Hópurinn var sterkur og veðrið var frábært,“ segir Helgi Jóhannesson í samtali við mbl.is en hann var einn þriggja leiðsögumanna í þessari páskaferð.
Hópurinn gekk upp á jökulinn, sem er 1.666 metra hár, en þaðan var skíðað niður. „Við erum fljót niður en erum álíka lengi og göngugarpar á leiðinni upp,“ útskýrir Helgi en ekki var hægt að notast við skíðin fyrr en í um 500 metra hæð vegna þess að enginn snjór var neðar.
„Þetta er jöklaferð og við vorum heppnir með veður en þetta er samt níu tíma ferð með öllu,“ segri Helgi en myndskeið frá ferðinni má sjá hér að neðan:
Eyjafjallajökull ´17 from Olafur Mar Bjornsson on Vimeo.