„Allt þetta samfélag fylgist með ferð vélarinnar. Það væri mjög gaman að hitta þristinn á lofti og fylgja honum inn til lendingar,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugstjóri og formaður Þristavinafélagsins, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hann til þess að í ágúst næstkomandi, að líkindum 26. dag þess mánaðar, kemur hingað til lands flugvél af gerðinni Douglas DC-3. Er vélin í hnattflugi og lýkur ferðalaginu um miðjan september.
Flugvélin kom út úr verksmiðju Douglas Aircraft á Long Beach í Kaliforníuríki árið 1940 og er hún því 77 ára gömul. Fyrsti eigandi hennar var bandaríska flugfélagið American Airlines, en árið 1942 fór flugvélin í þjónustu hersins sem notaði hana til ársins 1944. Svissneski úraframleiðandinn Breitling er núverandi eigandi vélarinnar, en fyrirtækið keypti þristinn árið 2008.
Hnattflugið hófst í mars síðastliðnum þegar lagt var af stað frá Genf í Sviss. Hefur vélin nú meðal annars flogið yfir Balkanríki, Mið-Austurlönd, Indland og Suðaustur-Asíu. Sem stendur er hún í reglubundnu viðhaldi í Singapúr og heldur til Malasíu 21. þessa mánaðar.
„Svona flug er mikil áskorun fyrir bæði menn og tæki. Þeir hafa vafalaust búnað til að fljúga blindflug, en það er t.a.m. enginn afísingarbúnaður eða veðurradar í þessum vélum,“ segir Tómas Dagur og heldur áfram: „Það er því mjög margt sem þarf að horfa til og skipuleggja áður en farið er í svona langa ferð.“
Flugvélin Páll Sveinsson er af gerðinni Douglas C-47A, sem er herflutningaútgáfa DC-3. Hún er nokkrum árum yngri en Breitling-þristurinn, framleidd árið 1943 og kom ný til landsins til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Síðan þá hefur vélinni verið flogið á hverju einasta ári, fyrir utan eitt þegar hún var í tímafrekri viðgerð. Flugtímarnir hafa hins vegar ekki verið margir undanfarin ár, eða einhvers staðar á bilinu 10 til 20 flugtímar á hverju sumri. Tómas Dagur segir Pál Sveinsson enn vera í vetrargeymslu í Flugsafni Íslands á Akureyri.
Aðspurður segir hann það vera einstakt að fljúga þristinum og fá þannig að upplifa flugið eins og það var í árdaga. „Flugvélin er í mjög góðu standi og verður væntanlega dregin út í byrjun maí, sett í gang og hreyfð aðeins,“ segir hann og bætir við: „Það er rosalega gaman að fljúga henni enda mjög þæg og góð þrátt fyrir að vera svifasein og þung í stýri, en menn læra nú bara á það.“