Garnaveiki í sauðfé í Húnavatnshreppi

Tilfellið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á búinu.
Tilfellið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á búinu. mbl.is/Árni Torfason

Nýverið var garnaveiki staðfest á sauðfjárbúi í Húnahólfi, nánar tiltekið á bænum Ytri-Löngumýri í Húnavatnshreppi. Á því svæði hefur garnaveiki greinst á tveimur öðrum bæjum síðastliðin 10 ár.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum, en með bólusetningu er hægt að verja sauðfé fyrir sjúkdómnum og halda smitálagi í lágmarki. Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu.

Tilfellið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á búinu en héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis sendi sýni úr veikri kind til greiningar á Keldum sem reyndist jákvætt m.t.t. garnaveiki.

Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Helstu einkenni hennar eru hægfara vanþrif með skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitbera“.

Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár eða lengri. Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.

Í gildi er reglu­gerð nr. 911/​2011 um garna­veiki og varn­ir gegn henni en mark­mið henn­ar er að stuðla að út­rým­ingu garna­veiki í jórt­ur­dýr­um. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka