Rútubílstjóri sofnaði undir stýri

Rútan rispaðist á hliðinni þegar hún fór utan í vegrið.
Rútan rispaðist á hliðinni þegar hún fór utan í vegrið.

Bílstjóri sofnaði undir stýri með 49 Íslendinga um borð á leið frá Dubrovnik til Porec í Króatíu um hádegisbilið í gær. Rútan var á 100 km hraða á hraðbraut og keyrði utan í vegrið og við það vaknaði bílstjórinn. 

„Við erum heppin. Mjög heppin að ekki fór verr. Rútan skoppaði og sem betur fer valt hún ekki,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson einn af 49 farþegum sem eru í ferð með Bændaferðum. Ólafur sá þegar rútan stefndi óðfluga í átt að vinstri akrein og þar kemur bíll á móti. „Ég kallaði og blístraði til að ná athygli bílstjórans,“ segir Ólafur.

„Við vorum öll í sjokki“

Eftir að rútan keyrði utan í vegriðið stöðvaði bílstjórinn rútuna og farþegarnir fóru út. Rútan skemmdist ekki mikið eftir atvikið en önnur hliðin rispaðist. Eftir þetta var ferðinni haldið áfram og sami bílstjóri ekur. „Við vorum öll í sjokki eftir þetta. Við bjuggumst við að fara í aðra rútu og jafnvel fá annan bílstjóra,“ segir Ólafur og bendir á að farþegunum hafi liðið mjög illa að sitja í rútunni næstu sjö klukkustundirnar sem eftir voru af ferðalaginu.

Atvikið átti sér stað í raun og veru á besta stað því rútan fór yfir fjallvegi þar sem þverhnípt var niður af veginum. 

Látið eins og ekkert hafi gerst

„Það var bara látið eins og ekkert hefði gerst. Það var ekkert rætt við okkur nema við vorum beðin um að setja þetta ekki á Facebook,“ segir Ólafur. Fararstjórinn hefur ekki enn rætt við hópinn um atvikið sem átti sér stað fyrir einum og hálfum sólarhring.

Sami bílstjóri mun keyra með hópinn til Salzburg í Austurríki á föstudaginn sem er 400 km langt ferðalag. Ólafur er uggandi yfir því og sömu sögu er að segja um marga ferðafélaga hans.  

Bílstjórinn er 68 ára gamall og er frá Króatíu. „Hvað á maður að sætta sig við? Það er ekki hægt að afgreiða allt sem syfju. Hvað ef hann er ekki heilsuhraustur og þetta gæti komið fyrir aftur,“ segir Ólafur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert