Undirbúningur er hafinn vegna útboðs á þremur nýjum björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Í svarinu kemur fram að samkvæmt gildandi fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir kaupum á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna á tímabilinu 2019-2021. Framlög af fjárfestingasvigrúmi áætlunarinnar til kaupa á nýjum þyrlum nema samtals um 14 milljörðum króna.
„Að ósk Landhelgisgæslunnar var ákveðið að fara þegar af stað með vinnu við gerð tæknilýsingar og annarra gagna sem nauðsynleg eru til að hægt sé að hefja útboð eða framkvæma forathugun á markaðnum til að öðlast betri þekkingu á hugsanlegum bjóðendum og markaðsverði. Þannig gæti sparast umtalsverður tími þegar að útboði kemur,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í svarinu, sem nánar er fjallað um í Morgunblaðinu í dag.