Það verður ekki sérlega sumarlegt veður á landinu á morgun, sumardaginn fyrsta. Lægð er á leið að landinu með suðvestlægar áttir, sem gæti valdið nokkrum strekkingi suðvestanlands og sunnan til, sérstaklega með ströndinni. „Þessu fylgir síðan éljakennd úrkoma fyrst í stað sem síðan færist yfir í él og jafnvel snjókomu vestan til á landinu,“ segir Arnór Tumi Jóhannsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofunni.
Vægt frost verður á hálendinu, en víðast þíða við ströndina og má búast við að hiti verði á bilinu 1-7 stig og í kringum frostmark á norðanverðu landinu.
Í dag verður sunnanátt 8-15 m/s og rigning eða slydda, einkum á Suður- og Vesturlandi. Vindur mun snúast í allhvassa suðvestan- og vestanátt með skúrum eða éljum, en léttir til austanlands síðdegis. Hiti verður á bilinu 1 til 12 stig í dag og verður hlýjast austast.
Hægari vindur verður á föstudag og birtir til, sérstaklega sunnan til á landinu, en hlýnar ekki að ráði.
Útlit er síðan fyrir fremur hæga vestlæga átt og skýjað á laugardag. Síðan kemur lægð upp að landinu á sunnudag. Henni mun fylgja rigning syðst, en slydda og snjókoma norðar á landinu. Nokkuð hvasst verður, sérstaklega suðaustan til og gæti vindurinn náð stormstyrk þar.