Stíga laust á bensíngjöfina í stað þess að bremsa

Álitsgerðin er sú fyrsta sem fjármálaráð sendir frá sér um …
Álitsgerðin er sú fyrsta sem fjármálaráð sendir frá sér um fjármálaáætlun stjórnvalda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útreikn­ing­ar fjár­málaráðs benda til þess að aðhalds­stig rík­is­sjóðs muni slakna stærst­an hluta fjár­mála­áætl­un­ar stjórn­valda fyr­ir árin 2018-2022. Það er aðeins árið 2018 sem það lít­ur út fyr­ir að aðhald muni aukast lít­il­lega. Þannig virðist sem stjórn­völd séu að stíga laus­ar á bens­ín­gjöf­ina þegar þau ættu að vera að bremsa og að sú slök­un í aðhaldi rík­is­fjár­mála sem hef­ur átt sér stað á und­an­förn­um árum muni halda áfram á tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar. 

Þetta kem­ur fram í álits­gerð fjár­málaráðs um til­lögu til þings­álykt­un­ar um fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2018-2022, sem hef­ur verið birt á vef Alþing­is. Rík­is­stjórn­in kynnti fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára í lok mars.

Þetta er fyrsta álits­gerð sem fjár­málaráð send­ir frá sér um fjár­mála­áætl­un. Hinn 9. fe­brú­ar 2017 skilaði fjár­málaráð fyrsta áliti sínu á fjár­mála­stefnu. 

Gunn­ar Har­alds­son er formaður ráðsins og Axel Hall er vara­formaður. Aðrir nefnd­ar­menn eru: Ásgeir Brynj­ar Torfa­son, Þóra Helga­dótt­ir Frost, Arna Olafs­son, sem er varamaður, og Hjör­dís Dröfn Vil­hjálms­dótt­ir, sem er einnig  varamaður.

Geng­ur lík­lega gegn grunn­gildi um stöðug­leika

Í álits­gerðinni, sem tel­ur um 40 blaðsíður, seg­ir enn­frem­ur, að í fjár­mála­áætl­un komi fram að virðis­auka­skatt­sí­viln­un ferðaþjón­ust­unn­ar verði af­num­in um mitt ár 2018 og verði þaðan í frá í al­mennu þrepi virðis­auka­skatts.

„Erfitt er að finna hald­bær rök fyr­ir því hví skatta­leg meðferð ferðaþjón­ustu ætti að vera frá­brugðin þeirri sem aðrar at­vinnu­grein­ar búa við. Mat fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins á þeim áhrif­um sem slík breyt­ing hef­ur á verðlag, straum ferðamanna og styrk­ingu krón­unn­ar er að þau séu óveru­leg.“

Jafn­framt komi fram að lækka eigi al­mennt skattþrep virðis­auka­skatts í janú­ar 2019 og sú aðgerð sé rétt­lætt með því aukna svig­rúmi sem hækk­un virðis­auka­skatts á ferðaþjón­ustu skapi. „Sú sér­tæka aðgerð er lík­leg til að ganga gegn grunn­gild­inu um stöðug­leika við þær efna­hagsaðstæður sem nú ríkja,“ seg­ir í álits­gerðinni.

„Sé það rétt að hækk­un virðis­auka­skatts á ferðaþjón­ustu hafi óveru­leg áhrif á komu og neyslu er­lendra ferðamanna flyt­ur sú aðgerð skatt­heimt­una af inn­lendri eft­ir­spurn yfir á ferðaþjón­ust­una. Með stöðug­leika að leiðarljósi er slíkt óvar­legt, í ljósi of­an­greinds, nú um stund­ir þar sem þess hátt­ar aðgerð ýtir und­ir þenslu. Í fjár­mála­áætl­un­ina vant­ar nán­ari grein­ingu á þess­um atriðum,“ seg­ir enn­frem­ur. 

Hætta á að all­ir geri sömu mis­tök

Fjár­málaráð fjall­ar einnig um líkön og spá­gerð á Íslandi. Í ált­is­gerðinni seg­ir m.a. eft­ir­far­andi: „Einnig vill fjár­málaráð benda á að ákveðinn­ar eins­leitni gæt­ir í líkön­um og spá­gerð á Íslandi nú um stund­ir. All­ir helstu aðilar hér á landi not­ast við lík­an Seðlabank­ans við spá­gerð sína. Þetta er áhyggju­efni. Eins­leit líkön leiða til eins­leitra spáa og umræða um efna­hags­mál verður eins­leit. Slíkt eyk­ur hættu á því að all­ir geri sömu mis­tök.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert