Sveinn Kr. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir nauðsynlegt að endurnýja bíla og búnað almennrar löggæslu.
Eru bílar umdæmisins sagðir í lélegu standi og þá mun ganga erfiðlega að finna einkennisfatnað á mannskapinn þar sem samningar lögreglunnar við birgja um kaup á fatnaði séu úr gildi fallnir. Því er nú verið að tína til fatnað sem til er á þá 22 sumarafleysingamenn sem verða við lögreglustörf á Suðurlandi í sumar. Munu sumarlöggurnar, sem svo eru kallaðar, verða í notuðum fötum.
„Fimm af okkar bílum eru komnir á endurnýjunartíma, en sennilega fáum við ekki nema einum skipt út í ár. Um mest eknu bílana má segja að einn dagur í notkun þýði annar á verkstæði og auðvitað er engin glóra í slíku,“ segir Sveinn Kr. í umfjöllun um aðbúnað almennu lögreglunnar í Morgunblaðinu í dag.