Það er í himnalagi að gráta

Aron Már Ólafsson er formaður félagasamtakanna Allir gráta og þekktur …
Aron Már Ólafsson er formaður félagasamtakanna Allir gráta og þekktur sem snapparinn Aronmola. mbl.is/Árni Sæberg

„Það alast svo margir strákar upp við karlmennskuhugmyndina, að þeir eigi að vera karlmenn og ekki gráta. En ég er að reyna að snúa því við og segja ungu fólki að það sé í himnalagi að gráta og viðurkenna að það þjáist af þunglyndi eða kvíða eða líði illa.“

Þetta segir Aron Már Ólafsson, formaður félagasamtakana Allir gráta í Morgunblaðinu í dag. Hann stofnaði samtökin í desember ásamt kærustu sinni, Hildi Skúladóttur, og góðum vini, Orra Gunnlaugssyni. Er markmið þeirra að opna umræðuna um þunglyndi og kvíða á meðal barna og unglinga og þá sérstaklega karlmanna.

Fann þörf í gegnum Snapchat

Aron Már er leiklistanemi og þekktur sem Snapchat-stjarnan Aronmola en hann er með yfir 30 þúsund fylgjendur á Snapchat og um 13 þúsund á Instagram. Það var einmitt í gegnum Snapchat sem hann fann þörfina fyrir verkefni eins og Allir gráta. „Ég hef verið með Snapchat-aðgang í tæp tvö ár sem Aronmola, það byrjaði sem grín en síðasta haust opnaði ég fyrir umræðu um sjálfan mig. Ég vildi segja fólki sem væri að takast á við vanlíðan að það væri ekki eitt í því. Ég hef gengið í gegnum mikla erfiðleika eftir að ég missti systur mína árið 2011, ég opnaði mig um það og sagði hvað ég gerði til að takast á við þunglyndið og til að komast yfir það. Það voru mikil viðbrögð við þessu vídeói og út frá því spratt hugmyndin að Allir gráta. Ég vildi taka þetta lengra og nýta krafta samfélagsmiðlana,“ segir Aron Már.


Boltinn fór fljótt að rúlla og frá áramótum hefur Aron Már haldið fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum. „Mig langaði til að nota Snapchat-vinsældirnar til að ná til krakkanna, vera fyrirmynd þeirra og talsmaður. Ég segir krökkunum frá reynslu minni og hvernig er best að takast á við vandamálin. Þeir eru mjög áhugasamir og það koma margir til mín eftir fyrirlestrana eða hafa samband í gegnum samfélagsmiðlana og leita ráðlegginga. Ég tala bara út frá minni reynslu svo ég mæli alltaf með því að þau tali við fagaðila eða foreldra sína, við fólk sem þau treysta,“ segir Aron Már.

Hann leggur mikla áherslu á að fólk sé óhrætt við að tjá tilfinningar sínar. „Ég líki þessu alltaf við aðrar mannlegar þarfir eins og að borða, sofa, pissa og kúka. Ef þú heldur í þér í marga daga hlýtur eitthvað slæmt að gerast, en um leið og þú loksins ferð á klósettið líður þér svo miklu betur á eftir. Þetta er alveg það sama, ein af grunnþörfum okkar er að tjá tilfinningar.“

Stuðla að bættu geðheilbrigði

Styrktarsjóður Allir gráta hefur opnað fyrir umsóknir í fyrsta sinn og er umsóknarfrestur fram til 1. júní. Sjóðurinn styrkir verkefni einstaklinga og hópa sem stuðla að bættu geðheilbrigði barna og unglinga á Íslandi. Verkefnin geta verið af öllum toga. Sótt er um þá upphæð sem þarf til að framkvæma verkefnið en hámarksúthlutun er ein milljón til hvers verkefnis. Hægt er að sækja um á vefsíðunni www.allirgrata.is.

Aron Már segir að utanaðkomandi nefnd muni velja bestu umsóknirnar. Fjármagnið sem er nú í styrktarsjóðnum kom með söfnun sem fór fram í gegnum Snapchat Arons Más í desember, þá söfnuðust 2,5 milljónir. Nú eru þau að selja nælur til fjáröflunar og þá taka þau einnig á móti frjálsum framlögum inn á reikning nr. 528-14-404866 kt. 5612160530.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert