Veður hindraði ekki hátíðarhöld

Skátafélagið Skjöldungur leiðir skrúðgöngu frá Langholtskirkju að Dalheimum á sumardaginn …
Skátafélagið Skjöldungur leiðir skrúðgöngu frá Langholtskirkju að Dalheimum á sumardaginn fyrsta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó að veðrið hafi ef til vill ekki verið eins og á sólríkum sumardegi var sumardagurinn fyrsti þó haldinn hátíðlegur víða í dag. Í Reykjavík var haldið upp á daginn í öllum hverfum borgarinnar með tilheyrandi lúðrablæstri, skrúðgögnum, blöðrum og hoppuköstulum svo fátt eitt sé nefnt. 

Dr. Bæk hefur verið á vappi um borgina í dag og býður fólki að mæta með hjólin sín í ástandsskoðun fyrir sumarið og frítt var í sund í Árbæjarlaug. Skrúðgöngur voru á fimm stöðum í Reykjavík og boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá í hverju hverfi en nánarmá lesa um dagskrána á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Víkingar grilla við Grímsbæ í Bústaðahverfi.
Víkingar grilla við Grímsbæ í Bústaðahverfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Venju samkvæmt stóð skátafélagið Kóparnir fyrir dagskrá í Kópavogi. Hófst hún með skrúðgöngu frá Digraneskirkju klukkan 13.30 en skátarnir og Skólahljómsveit Kópavogs leiða gönguna. Í Fífunni verður svo boðið upp á skemmtiatriði, hoppukastala, gleði og glens auk þess sem sumarbyrjun er fagnað á útivistarsvæði Menningarhúsanna í Kópavogi, á Bókasafninu, Náttúrufræðistofu og í Gerðarsafni.

Á Víðistaðatúni í Hafnarfirði var einnig haldið upp á daginn með fjölbreyttri dagskrá. Æfingahópur Siglingaklúbbsins Þyts bauð bæjarbúum út að sigla, Víðavangshlaup Hafnarfjarðar var ræst klukkan 11 og í hádeginu grillaði bæjarstjórinn fyrstu pylsurnar í nýbyggðu grillhúsi á Víðistaðatúni. Þá var skrúðganga á sínum stað, kassabílarall og fjölskyldudagskrá á Víðistaðatúni.

Skrúðganga að Bústaðakirkju með Skólahljómsveit Austurbæjar. Fánaberar úr röðum Víkinga …
Skrúðganga að Bústaðakirkju með Skólahljómsveit Austurbæjar. Fánaberar úr röðum Víkinga og skáta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skátafélagið Vífill, sem fagnar 50 ára afmæli í ár, annaðist hátíðardagskrá í Garðabæ en þar fer fram skatamessa í Vídalínskirkju kl. 14.00 og skrúðganga að henni lokinni. Þá tekur við hátíðardagskrá í Hofsstaðaskóla, skátakaffi og kökuhlaðborð og tónlistaratriði.

Skátafélagið Mosverjar í samstarfi við Mosfellsbæ stóð einnig fyrir skemmtidagskrá, skrúðgöngu og hátíðarhöldum við íþróttamiðstöðina að Varmá og standa hátíðarhöld yfir til kl. 16.00 í dag.

Börn í Bústaðahverfi fagna sumardeginum fyrsta, vel klædd í kuldanum.
Börn í Bústaðahverfi fagna sumardeginum fyrsta, vel klædd í kuldanum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Það er ekki alltaf blíðan á sumardaginn fyrsta en fólk …
Það er ekki alltaf blíðan á sumardaginn fyrsta en fólk lét þó ekki veðrið á sig fá. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Skólahljómsveit Austurbæjar á sumardaginn fyrsta.
Skólahljómsveit Austurbæjar á sumardaginn fyrsta. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert