Fjalldalabóndi situr fyrir eftir 20 ára hlé

Heiða er fjárbóndi og brátt byrjar sauðburður, þá er gaman …
Heiða er fjárbóndi og brátt byrjar sauðburður, þá er gaman og erfitt.

Fjalladalabóndinn, náttúruverndarsinninn, rúningsmaðurinn, fósturtalningakonan og nú aftur fyrirsætan, Heiða á Ljótarstöðum, rifjaði upp taktana í ljósmyndastúdíóinu fyrir Sigríði Sunnevu sem hannar flíkur og fylgihluti úr mokkaskinni. Heiða komst að því að það er alveg hægt að vera módel þó að kona sé með hendur eins og stunguskóflur og lærin þakin marblettum eftir kindahorn.

Ætli beri ekki hjá mér þetta vorið um 460 skepnur, og megnið ætti að fara á fjall með tvö lömb, ef vel gengur, en gemsarnir eru flestir einlembdir,“ segir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum, þegar hún er spurð út í komandi sauðburð. Heiða hefur tölurnar á hreinu því hún hefur kíkt í legið á sínum kindum, enda starfar hún sem fósturtalningamanneskja og er með réttu græjurnar til að sónarskoða ærnar.


„Vertíðin hjá mér var aðeins styttri þetta árið í ferðlagi um landið við fósturtalningar, af því að ég skrapp til Nýja-Sjálands að keppa í rúningi. Ég var ekki nema fjórar vikur að telja fóstur, en venjulega er ég í sex vikur,“ segir Heiða sem á von á því að fyrstu lömbin komi í heiminn hjá henni um næstu helgi.

Systir kemur með húmor að hjálpa til í sauðburðinum

„Sauðburðurinn fer rólega af stað en allt verður komið á suðupunkt um tíunda maí. Ég hef tryggt mér hjálparhellur, það þýðir ekkert annað, annars fer allt í vitleysu þegar mest er að gera. Stella systir mín ætlar að koma til mín og vera hjá mér í viku, eins og hún hefur gert síðustu ár. Hún er leikskólakennari norður á Akureyri og hefur tekið sér frí til að létta undir með mér, sem er kærkomið. En það er líka mikið atriði að það sé gaman á þessum háannatíma, maður verður að geta hlegið og ruglað einhverja vitleysu, svo maður missi ekki geðheilsuna. Stella er mjög góð í því að halda uppi húmornum,“ segir Heiða og hlær.


Hárug, sveitt og skítug

Hið óvænta gerðist á dögunum að Heiða brá sér aftur í hlutverk fyrirsætunnar, en tuttugu ár eru síðan hún reyndi fyrir sér á þeim vettvangi og komst alla leið til New York við það starf að sitja fyrir.

„Það er frekar auðvelt að fá mig til að taka þátt í hverskonar vitleysu og mér finnst gaman að breyta til og gera einhverjar gloríur, svo ég sagði bara já þegar Sigríður Sunneva hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að sitja fyrir á myndum hjá henni með mokkavörurnar hennar sem hún hannar undir merkjum WETLAND. Það var skemmtilega súrrealískt í hvaða aðstæðum ég var þegar hún hringdi í mig, þá var ekkert fjarri mér en að sitja fyrir á myndum. Ég var í bílnum mínum í fósturtalningaferðalagi ásamt lærlingnum Guðrúnu Hildi og schäfer-hundinum mínum. Við vorum öll frekar hárug, sveitt og skítug, angandi af viðvarandi fjárhúsalykt, með húfurnar ofan í augum og rauðeygar af þreytu,“ segir Heiða og bætir við að vissulega hafi hún líka sagt já af því hún sé veik fyrir mokkaflíkum.


Vöðvahlunkur með vinnuhendur getur setið fyrir

„Í gamla daga fékk ég varla meira en nokkrar myndir og kvef að launum fyrir að sitja fyrir, en Sigríður Sunneva borgaði mér í dýrindis mokkaflík, svo það var ekki erfitt að segja já við þessu verkefni. Mér finnst líka heiður að fá að taka þátt í því sem hún er að gera í sinni hönnun með þessa afurð sauðkindarinnar.“

Myndatakan fór fram í lok mars, svo Heiða náði af sér mesta fósturtalningalúkkinu áður en til hennar kom, eins og hún orðar það sjálf.


„Ég sagði Sigríði Sunnevu að hún yrði að athuga hvort hún gæti notað mig því ég væri ekki með fyrirsætulíkama, ég væri meira eins og herðabreiður spjótkastari. Ég væri vöðvahlunkur með vinnuhendur. En henni fannst það engin fyrirstaða. Þegar hún vildi hafa mig berleggjaða á einhverjum myndum sagði ég henni að ég væri öll í marblettum því ég var nýbúin að rýja, en henni fannst það bara betra,“ segir Heiða og hlær. „Það er sem sagt alveg hægt að vera módel þó að maður sé með hendur eins og stunguskóflur og lærin þakin marblettum eftir kindahorn.“

Góð tilfinning að fljótið fái að renna ósnert

Heiða hefur árum saman barist fyrir því að ekki verði virkjað í landi hennar og heiðarlöndum Skaftártungunnar, og stendur sú barátta enn.


„Hugmynd að Búlandsvirkjun er í verndarflokki í rammaáætlun þrjú, eins og hún er núna fyrir þinginu. Ég sendi athugasemdir við þingsályktunartillöguna og fagna því að þetta sé í verndarflokki en gerði athugasemdir við hugmyndir um Hólmsárvirkjun, sem er enn í biðflokki. Það þarf blessunarlega mikið að gerast til að Búlandsvirkjun fari úr verndarflokki fyrir þinginu, svo ég leyfi mér að vera töluvert bjartsýn.

Á nýársdagsmorgun á þessu ári var mjög fallegt veður hér og ég heyrði í fljótinu, hvernig það kliðaði milli skara, og ég hugsaði að þetta væri í fyrsta sinn í mörg ár sem ég gat verið nokkuð viss um að fljótið fengi að renna ósnert. Það var rosalega góð tilfinning. Mér líður fyrir vikið svo miklu betur, og finn fyrst núna hvað álagið og stressið er búið að vera mikið og taka af mér toll. Þessi barátta harðnaði mjög árið 2012 og það var gríðarlegt álag á mér í kringum hana.“


Heiða bætir því við að margir slagir séu eftir, margar slæmar virkjanahugmyndir séu á borðinu. „Hólmsárvirkjun er í bið, Skrokkalda er hræðileg hugdetta, og ég skil hvað fólkinu líður illa úti við Þjórsá, það á eftir að takast á um hana.“

„Heiða er öflug fyrirmynd fyrir alla, hún fer sínar eigin leiðir.“

Þegar Sigríður Sunneva Vigfúsdóttir fatahönnuður er spurð að því hvers vegna hún og samstarfskonur hennar í WETLAND hafi fengið Heiðu til að sitja fyrir, stendur ekki á svarinu: „Heiða er sauðfjárbóndi af lífi og sál og fellur vel að heildarhugmynd WETLAND. Hún er yfirvegaður og sterkur einstaklingur sem fer sínar eigin leiðir, öflug fyrirmynd fyrir alla.“

Sigríður Sunneva segir þær vera þrjár konur sem standa saman að WETLAND. „Ég er fatahönnuður, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir er viðskiptafræðingur og Elísabet Jónsdóttir grafískur hönnuður. Þetta er nýtt hönnunarfyrirtæki, og er „WETLAND, a piece of the North“ vörumerkið okkar. Í okkar huga er WETLAND táknrænt fyrir ævintýraeyjuna með fossum, jöklum, sundlaugum, grænni orku og sífelldum veðrabrigðum. Við höfum hannað okkar fyrstu vörulínu og ætlum að prufukeyra hana á fjármögnunarsíðunni INDIGOGO.com. Markmiðið er að vera með forsölu og safna um leið fjármagni til þess að taka fyrstu skrefin í haust, þ.e. vinna vefsíðu þar sem varan verður seld og framleiða lager til að taka fyrstu skrefin í útrás okkar. Þar verður fyrst hægt að kaupa vörulínuna okkar.

Við leggjum áherslu á norræna hönnun í sínum einfaldleika, hún er tímalaus og með gullinsnið í öndvegi. Ég held áfram að vera trú mokkaskinninu og inni í fyrstu vörulínunni eru fylgihlutir og léttar yfirhafnir svo sem töskur, slár, treflar og fleira. Við viljum kynna þessa íslensku hönnunarvöru úr mokkaskinni fyrir víðri veröld, fólk getur keypt hana á netinu og vonandi seinna í hönnunarverslunum, hvar sem það er statt í heiminum. Við höfum fundað með Samtökum sauðfjárbænda og kynnt viðskiptahugmyndina WETLAND. Markmið okkar er að stuðla að því að gera meiri verðmæti úr hliðarafurðum sem falla til þegar lambakjöt er framleitt, eins og ullinni og gærunum. Við viljum gera hönnunarvörur úr þessu séríslenska hráefni. Nútíminn er sem betur fer að snúast í átt til sjálfbærni, „slow fashion“ og „slow food“ er það sem koma skal, og við erum í góðri aðstöðu til að sinna því betur hér á Íslandi. Þetta er sjálfbært hráefni sem endist kynslóð eftir kynslóð.“

Sunneva segir að WETLAND-hönnunarvörurnar eigi að vera samkeppnishæfar úti í hinum stóra heimi. „Ég hef unnið með þetta hráefni í tuttugu ár og veit hvað þetta er máttugt.“

Fyrirsætan Heiða Guðný tekur sig vel út með vörur Sigríðar …
Fyrirsætan Heiða Guðný tekur sig vel út með vörur Sigríðar Sunnevu
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert