Ný plöntutegund hefur fundist hér á landi. Latneska heiti hennar er Arabidopsis thaliana en gæsamatur er íslenska heitið. Frá þessu er greint í vísindaritinu Icelandic Agricultural Science.
Greinina rita Terezie Mandáková, Hjörtur Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson. Tímaritið er gefið út af háskólum og rannsóknarstofnunum hér á landi í landbúnaðarfræðum.
Nýja plantan fannst í maí árið 2015 á jarðhitasvæði við Deildartunguhver í Borgarfirði. Fram kemur í greininni að fjöldi greininga á erfðaefni gæsamatar sé til víðsvegar í heiminum og þannig sé hægt að rekja skyldleika, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.