Krían komin frá Suður-Íshafi

Krían étur sandsíli og fylgir stofnstærð hennar því sveiflum í …
Krían étur sandsíli og fylgir stofnstærð hennar því sveiflum í stofni sandsílis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Krían er komin til landsins, nokkrum dögum fyrr en að meðaltali síðustu ár. Að venju sást hún fyrst í nágrenni Hafnar í Hornafirði. Krían er harðduglegur fugl sem flýgur ár hvert til vetrarstöðva sinna í Suður-Íshafi að aflokinni sumardvöl á Íslandi. Vegalengdin, fram og til baka, jafnast á við flug umhverfis jörðina.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir að góð veðrátta skýri snemmkomu hennar þetta árið. Hann segir að almennt sé komutími margra fuglategunda hingað til lands að færast fram. Loftslagsbreytingar séu helsta orsökin. 

Meðalkomutími kríu hingað til lands er 22. apríl. Í ár sást hún hins vegar skammt frá Jökulsárlóni 19. apríl, að því er fram kemur á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands. Þar sáust að tólf kríur þann dag og síðan þá hafa þær sést víðar. 

Jóhann Óli segir að krían sé mjög iðin og sífellt á flugi, allt sitt líf. „Það hefur verið reiknað út að bara farflug hennar jafnist á við að hún fljúgi eina og hálfa ferð til tunglsins um ævina.“

Ekki er með vissu vitað hversu mörg pör kríu verpa á Íslandi á hverju ári en fjöldinn er á milli 250 og 500 þúsund pör.

Hann segir að reiknað hafi verið út að kría fljúgi vegalengd sem jafnist á við ferð til tunglsins og hálfa leið til baka á ævi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert