„Þessi tilkynning landlæknis breytir engu fyrir okkar stöðu. Þetta er bara hans greining á málinu,“ segir Hjálmar Þorsteinsson læknir, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar Ármúla, um yfirlýsingu um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu sem Birgir Jakobsson, landlæknir, birti á vef embættisins í vikunni.
„Landlæknir heyrir undir velferðarráðuneytið og það hefur úrskurðað í málinu og sá úrskurður gildir,“ segir Hjálmar. Heilbrigðisáðherra hafi ákveðið að þrátt fyrir að Klíníkin væri með legudeild skyldi hún skilgreind sem „starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna“ samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu en ekki „sérhæfð heilbrigðisþjónusta“ samkvæmt sömu lögum. Orðalag laganna gefi þó tilefni til hártogana því í 7. grein þeirra segir að á „starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna er veitt sérhæfð heilbrigðisþjónusta“.
Í tilkynningu landlæknis kemur fram að hann taki ekki afstöðu með eða móti rekstri Klíníkurinnar Ármúla eða annarra sambærilegra stofnana í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, en telji að óviðunandi staða sé komin upp vegna lagatúlkunar ráðuneytisins. Heilbrigðisstofnanir þurfi samkvæmt henni ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu/sjúkrahúsþjónustu í formi fimm daga deildar, einungis staðfestingu frá embætti landlæknis um að þær uppfylli faglegar kröfur til rekstrarins. Þær geti fjármagnað rekstur sinn með gildandi samningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur.
Hjálmar Þorsteinsson segir að samningar sérfræðilækna við Sjúkratryggingar snúi eingöngu að hefðbundnum stofurekstri, þ.e. móttöku og greiningu þar sem sjúklingur leggst ekki inn. Klíníkin hafi boðist til að taka þátt í átaki ráðuneytisins til að fækka sjúklingum á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum, en því boði hafi ekki verið tekið.
Á vef Klíníkurinnar kemur fram að þar er boðið upp á liðskiptaaðgerðir án kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga og kosta liðskipti rúma eina milljón króna.
Auk bæklunarlækninga sinnir Klíníkin lýtalækningum, meðferð brjóstkrabbameins, meðferð vegna offitu og æðaskurðlækningum.