Þau Erla Þórey og Bjarni, bændur í Hraunkoti í Landbroti, voru alveg búin að gleyma lambinu með undarlegu hornin þegar það skilaði sér í eftirleit rétt fyrir síðustu jól.
Smalar héldu að þar færi geithafur þegar þeir sáu hann í kíki sínum, en horn lambhrútsins höfðu vaxið þétt saman beint upp úr höfði hans. Eldri bændur í sveitinni hafa gert sér ferð til Erlu og Bjarna til að skoða undarlega skepnuna með uppglennt augun.
„Það var skondið að smalarnir sem sáu hann í kíki hjá sér þegar þeir voru að leita, vissu ekki hvaða fyrirbæri þetta væri og héldu fyrst að hann væri geithafur, með þetta háa horn. En þeir sáu svo þegar þeir komust nær að hann var sauðkind með svona sérstæð samvaxin horn. Bæði hornin vaxa þétt saman líkt og um eitt voldugt horn sé að ræða, sem klofnar í tvennt í endann,“ segir Erla og bætir við að eftirlegukindin Einhyrningur hafi komið til byggða ásamt ánni móður sinni og gimbrinni tvílembingnum á móti honum, sem og annarri tvílembu. Þetta voru því sex kindur saman sem fundust og skiluðu sér heim á aðventunni.
„Við höldum að það sé einhverskonar stökkbreyting sem veldur þessum undarlega vexti hornanna. Móðir hans og faðir eru ekki ferhyrnd eða neitt slíkt, og það er ekkert ferhyrnt fé í okkar kindum, svo ekki hefur hann fengið þetta með genunum. Eldri bændur hér í sveitinni hafa gert sér sérstaka ferð hingað til okkar til að skoða hrútinn, því vissulega er þetta eitthvað sem fáir hafa áður séð. En þeir hafa engar sérstakar kenningar um hvers vegna skepnan er svona. Hann er bara einstakt fyrirbæri og auk þess nokkuð sérstakur á svipinn, því hann er með uppglennt augu af þessum sökum, það er líkt og hornin með þessum óvenjulega vexti beint upp, nái að teygja á augnlokunum og fyrir vikið er hann svolítið hissa á svipinn, eða jafnvel sorgmæddur. Hann er eiginlega svolítið strekktur í framan, eins og fólk sem fer í andlitslyftingu,“ segir Erla og hlær og bætir við að hann hafi verið svona strekktur í framan þegar hann kom í heiminn.
„Hann bar alveg rétt að í burði og átti ekki í neinum erfiðleikum með að sjúga.“
Erla segir Einhyrning vera frekar rólegan og hafa gott geðslag. „Hann er meinlaus greyið, en þeir berjast hrútarnir sem eru með honum í stíu, og það hefur skafist af honum skinn á kúbunni, kannski leggja þeir hann í einelti af því að hann er öðruvísi, hver veit. Hann hefur ekki sýnt nein undarleg persónueinkenni, en hann er klókur að finna sínar leiðir og lausnir, hann þarf til dæmis að skáskjóta hausnum til að koma honum milli garðabands og garða, svo hann geti étið heyið þegar við gefum á garðann. Hornið eina á honum er vissulega til trafala því í fjárhúsinu er ekkert hannað fyrir einhyrninga,“ segir Erla og hlær. „Ekki var heldur vandræðalaust að rýja hann, sem Bjarni maðurinn minn gerði nýlega, því volduga hornið vísar vissulega ekki í þá átt sem venja er að horn á kindum vísi, en rúningurinn tókst samt að lokum.“
Þó að Einhyrningur sé svo skemmtilega óvenjulegur sem raun ber vitni, þá dugar það honum ekki til lífs.
„Hann fær ekki að lifa nema fram á næsta haust, greyið. Hann er ekki kynbótakind, það er alveg ljóst, hann er helst til holdrýr og þrífst ekki nógu vel, hann heldur illa holdum. En hann fær sitt auka sumar núna,“ segir Erla að lokum sem ekki hefur grafið upp einhyrningssögur til að lesa fyrir börnin sín í tilefni af furðuskepnunni á bænum.