Stjórnendur Íslandshótela munu endurskoða áform um uppbyggingu hótela í Reykjavík og á landsbyggðinni ef virðisaukaskattur hækkar. Kostnaður við umrædd verkefni hleypur á milljörðum króna.
Meðal þeirra eru áform um stækkun Grand hótels og nýtt hótel á lóð Sjallans. Ólafur Torfason, stofnandi Íslandshótela, segir fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu í 24% ógna rekstri margra hótela, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
„Áform okkar eru í uppnámi vegna boðaðra breytinga á virðisaukaskatti. Það er mikil óvissa í greininni, sérstaklega úti á landi. Fyrirtækin hafa þurft að takast á við hækkuð laun og styrkingu krónunnar og eiga nú yfir höfði sér yfir 10 prósentustiga hækkun virðisaukaskatts. Það er viðbúið að þetta muni hafa áhrif til samdráttar á afkomu hótela. Reksturinn getur ekki tekið á sig slíka hækkun,“ segir Ólafur en Íslandshótel reka 17 hótel.