Breski kvennalistinn, Women's Equality Party, mun bjóða fram í þingkosningunum í sumar, en verið er að ákveða endanlega í hvaða kjördæmum það verður. Íslendingurinn Halla Gunnarsdóttir er ein þeirra sem veitt hafa flokknum forystu frá upphafi, en hún er skrifstofustjóri stefnumótunar og tengsla hjá flokknum.
Flokkurinn er í grunninn þverpólitískur og stofnaður með það í huga að mynda breiðfylkingu utan um málefni kvenna í landinu. Eitt stærsta mál flokksins um þessar mundir eru leikskólamálin en Halla segir leikskólamálin í algjörum ólestri í landinu og leikskólagjöldin mjög há. „Sem gerir það að verkum að hér eru konur um allt land fastar heima því þær hafa ekki efni á að vinna,“ segir hún en með lægri leikskólagjöldum mætti auðvelda konum að snúa aftur á vinnumarkaðinn.
Önnur mál flokksins eru ofbeldis- og internetofbeldismál, launamál, kynfræðsla og menntamál svo dæmi séu tekin.
Halla segir kosningakerfið í Bretlandi gera litlum flokkum erfiðara um vik. „Það eru þessi einmenningskjördæmi sem gerir þetta allt svolítið flókið, fólk er mjög óttaslegið þegar það kýs því það vill ekki kasta atkvæðinu á glæ,“ segir hún. „Við veljum þess vegna strategískt hvar við bjóðum fram. Ef konur eru t.d. þingmenn í kjördæmi og hafa látið sig málefni kvenna varða, þá mætum við ekki á svæðið og rænum atkvæðum af þeim.“
Flokkurinn hefur boðið fram í borgarstjórnarkosningum í Lundúnum og Liverpool, og þingkosningum í Wales og Skotlandi, en þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn býður fram í þingkosningum í Bretlandi. „Verkamannaflokkurinn hefur tekið okkur illa, þeir telja sig eiga kvenréttindin,“ segir Halla. Íhaldsflokkurinn telur sér ekki stafa eins mikil ógn af Kvennalistanum og því ekki tekið framboðinu illa eins og Verkamannaflokkurinn, segir Halla.
„Þetta verða áhugaverðar kosningar,“ segir Halla en Theresa May forsætisráðherra Bretlands boðaði óvænt til þingkosninganna í síðustu viku. Segir hún Frjálslynda demókrata strax hafa stokkið til, tilbúnir að láta baráttuna snúast umBrexit á sama tíma og Verkamannaflokkurinn láti það alveg ósnert, og einbeiti sér að efnahagsmálum og stéttarbaráttunni. Segir Halla það verða áskorun fyrir flokkinn að koma sér inn í umræðuna. UmBrexit segir hún stefnu flokksins fyrst og fremst snúast um að standa vörð um þær reglugerðir sem vernda réttindi kvenna í landinu, og að þær fái ekki að fjúka „með einu pennastriki,“ líkt og hún orðar það.
„Við verðum að vera vongóðar,“ segir hún spurð um möguleika flokksins að ná inn þingmanni. „Það er á brattan að sækja, en það er ekki alveg vonlaust. Það fer alveg eftir því á móti hverjum við erum að bjóða og hverjir andstæðingarnir eru.“
Hún segir að þar sem flokkurinn hafi boðið fram til þessa hafi frambjóðendur annarra flokka stundum tekið upp stefnumál flokksins, og það sé alltaf ákveðinn sigur. „Ef við náum að þoka þessum leikskólamálum eitthvað áfram, þá tel ég að það muni breyta miklu,“ segir hún.